Náttúrulæsi var annar af áföngunum sem kenndur var í miðannarviku Menntaskólans á Tröllaskaga.
Áfanginn var að stærstum hluta kenndur úti í náttúrunni og miðaði að því að auka þekkingu nemenda á umhverfi sínu og virðingu fyrir náttúrunni.
Allir dagarnir byrjuðu á hópeflisleikjum sem hristu fólk saman og sköpuðu jákvæða stemningu í hópnum og eftir það byrjaði dagskráin. Meðal annars þurftu nemendur að höggva eldivið, hlaða bálköst og elda mat frá grunni við opinn eld. Þá var kennsla í línuvinnu og klettaklifri og nemendur spreyttu sig á að súrra saman trjáboli og tálga úr tré.
Vikan einkenndist af hreyfingu og útivist í bland við að reyna nýja hluti og safna þekkingu í reynslubankann. Leiðbeinendur komu frá Náttúruskóla Íslands sem starfræktur er í samvinnu við Óbyggðasetrið í Fljótsdal.