Á vefsíðu forseta Íslands er frétt frá heimsókn nemenda Menntaskólans á Tröllaskaga og gesta. Segir þar að “forsetinn hafi tekið á móti nemendum við Menntaskólann á Tröllaskaga og gestum þeirra frá útlöndum. Undanfarna daga hafa nemar og kennarar frá Lanzarote á Spáni og Castel di Sangro dvalist í Fjallabyggð og kynnst landi og þjóð.
Heimsóknin er hluti Erasmusverkefnisins „Towards empowerment and sustainability of young people“.
Nánar segir frá heimsókninni á heimasíðu MTR. Heimsókn nema frá Tías á Lanzarote og PT skólanum á Ítalíu til okkar á Tröllaskaga tókst sérlega vel þótt veðurguðirnir hjálpuðu ekki beinlínis til.
Heimsókninni lauk með boði hjá Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands á Bessastöðum í gær.
Fulltrúar ítölsku og spænsku nemendanna færðu honum gjafir. Hann sagði eitt það besta við að gegna þessu embætti vera að fá að taka á móti gestum víða að og njóta samveru við þá.
Forsetinn bauð upp á hefðbundnar íslenskar veitingar, meðal annars kaffi, pönnukökur og kleinur. Hann spjallaði óformlega við gestina og gerði að gamni sínu. Margir tóku sjálfur með forsetanum.
Á Tröllaskaga dvöldu gestirnir hjá fjölskyldum og var almenn ánægja með gistinguna og samskiptin við fjölskyldurnar.
Gestgjafarnir, nemendur í MTR, fylgdu gestum sínum suður ásamt kennurum sem sinna samstarfsverkefninu. Það snýst um að efla nemendur í dreifðum byggðum í því að finna leiðir til að takast á við framtíðina í hörðum heimi.
Erlendu nemunum fylgdu fimm kennarar og þrír af kennurum MTR sinntu móttökunni. Allir hlakka til síðasta áfanga í þessu verkefni sem fram fer á Ítalíu á vorönninni.
Sjá frétt: Örlagaríkur kaffibolli á Kaffi Klöru
Mynd: af vefsíðu forseta Íslands