Netöryggiskeppni Íslands hófst í gær með forkeppni á netinu sem stendur til 15. febrúar. Keppnin er nú haldin í annað sinn en sú fyrsta fór fram í Hörpu í febrúar 2020. Netöryggiskeppninni lýkur með landskeppni í mars en þar verður keppt um þátttökurétt í Netöryggiskeppni Evrópu, European Cyber Security Challenge (ESCS), sem fer fram í Prag í lok september á þessu ári. 

Markmið keppninnar er að vekja áhuga ungs fólks á netöryggi og hvetja ungt fólk til þess að mennta sig á því sviði og gera netöryggi að atvinnu sinni. Þrátt fyrir mikilvægi netöryggis skortir enn fleira hæfileikaríkt fólk til að takast á við þær áskoranir sem því fylgja. Þess vegna setti Netöryggisstofnun Evrópu, ENISA, á laggirnar Netöryggiskeppni Evrópu og Evrópuþjóðir halda síðan eigin landskeppnir.

Í keppninni leysa keppendur gagnvirk verkefni, sem öll tengjast netöryggi, og mörg hver líkja eftir raunverulegum öryggisgöllum sem upp hafa komið í gegnum tíðina. Verkefnin reyna jafnt á skapandi hugsun sem og rökhugsun, en lögð er sérstök áhersla á að framsetning efnisins sé skemmtileg. 

Netöryggiskeppni Íslands fer fram í tveimur hlutum. Tveggja vikna forkeppni fer fram á netinu 1.-15. febrúar og er opin öllum. Þeir keppendur sem standa sig best í forkeppninni, öðlast þáttökurétt í landskeppni, sem haldin verður í mars. Markmið landskeppninnar er að velja 10 manna lið til að taka þátt í Netöryggiskeppni Evrópu (ESCS) fyrir hönd Íslands. Samkvæmt reglum ESCS verða keppendur að vera á bilinu 14-25 ára (fædd á árunum 1996 til og með 2007).

Landskeppnin verður haldin helgina 20.-21. mars. Unnið er að því að velja heppilegt húsnæði til að halda keppnina þar sem hægt verður að tryggja sóttvarnir og viðeigandi fjarlægð á milli keppenda.

Netöryggiskeppnin er haldin að frumkvæði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og í samvinnu við Menntamálastofnun og fyrirtækið Syndis, sem hefur umsjón með framkvæmd keppninnar.

Skoða á vef Stjórnarráðsins.
Mynd frá keppninni 2020.