Tólf stúdentar brautskráðust frá Menntaskólanum á Tröllaskaga í gær. Þrír útskrifuðust af félags- og hugvísindabraut, einn af útivistarsviði íþróttabrautar, tveir af listabraut, einn af kjörnámsbraut og fimm luku viðbót við starfsnám til stúdentsprófs. Þessir tólf nemendur koma frá átta stöðum á landinu og ellefu þeirra voru fjarnemar við skólann.

Lára Stefánsdóttir, skólameistari greip til líkinga þegar hún ávarpaði brautskráningarhópinn. Hún rifjaði upp atburði síðustu tíu daga í landshlutanum. Hvernig menn hefðu gripið í tómt þegar þeir ætluðu að nota rafmagn, síma og aðra innviði. Hún sagði að í námi byggðu nemendur upp innviði sína, tileinkuðu sér færni af ýmsu tagi, læsi, reikning, notkun erlendra tungumála og fjölmargt annað. Hún sagðist þess fullviss að stúdentsprófið myndi nýtast vel, það væri ákveðin innistæða en símenntun væri líka nauðsynleg.

Brynjar Bjarkason flutti ávarp nýstúdents. Hann þakkaði skólanum fyrir tækifæri til að klára námið á eigin forsendum. Hann hefði byrjað í framhaldsskóla fyrir tíu árum en loksins væri náminu lokið með stúdentsprófi eftir nokkur stopp og pásur. Hann sagðist reikna með að margir væru í sömu sporum. En Menntaskólinn á Tröllaskaga hefði veitt mjög sérstakt tækifæri til að ljúka náminu án þess að segja upp vinnu, flytja að heiman eða taka kvíðvænleg lokapróf. Brynjar þakkaði starfsmönnum skólans fyrir áhuga og frumkvæði og hvatti samstúdenta sína til að setja sér markmið og vinna ötullega að þeim.

Hjá Jónu Vilhelmínu Héðinsdóttur, aðstoðarskólameistara kom fram að um 340 nemendur hefðu stundað nám við skólann á önninni. Þar af hefðu 248 verið skráðir í fjarnám. Fjölmennasta brautin var félags- og hugvísindabraut með 138 nemendur, 55 voru á náttúruvísindabraut, 52 á listabraut, 43 á íþróttabraut, 14 á kjörnámsbraut, 7 á starfsbraut og 16 á grunnmenntabraut, þar af 10 grunnskólanemar.

Við útskriftina önnuðust Hörður Ingi Kristjánsson, Júlíus og Tryggvi Þorvaldssynir og Mikael Sigurðsson tónlistarflutning með aðstoð Guðmanns Sveinssonar kennara síns á tónlistarbrautinni.

Myndir


Myndir: Gísli Kristinsson