Hér áður fyrr var mikið um jólaföndur í skólastarfinu og við börnin á Sigló vorum með stórar handavinnusýningar vetur og vor. Útsaumaðir jóladúkar, og klukkustrengir voru vinsælir.
Við drengirnir vorum mest í trévinnu, pússuðum fiska og hvali í ýmsum stærðum og gerðum.
Í dag eru börn og unglingar mest í því að stara ofan í snjallsímann sinn og mega ekki vera að því að föndra.
Man nú samt eftir að að við strákarnir vorum líka í saumavinnu og að mér fannst reyndar gaman af krosssaumsmyndum en það mátti maður ekki segja upphátt sem verðandi ungur karlmaður. Minnist einnig föndurs þar sem við skárum út myndir í kartöflur og stimpluðum síðan á dúka. Mjög skemmtilegt.
Metnaðarfullar húsmæður bæjarins skiptu um innréttingar á heimilum sínum yfir jólin, mjög svo litríkt jóladót birtist í tonnatali. Jólagardínur, útsaumaðir og handmálaðir jóladúkar og klukkustrengir með jólaþema upp um alla veggi og vandaðir stórir dúkar undir jólatréð.
Jólatíska norðurlandanna virðist vera svipuð á þessum árum, munstur og annað breytist kannski svolítið á milli ára eins og t.d. þá voru jólin 1970…. og eitthvað….. appelsínugul og brún.
Hræðilega ljótt fannst mér þá og þykir ennþá.
En nú skulum við kíkja á nokkrar myndir frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.

Handavinnusýning í barnaskólanum, klukkustrengir á veggjum og pússaðir fiskar á borðum.

Frá jólabasar í Barnaskólanum.

Þetta er líklega mynd af handavinnu sem gerð var í gamla Æskó við Vetrabrautina.
Greinarhöfundur skrapp í heimsókn á Bohuslän museum nýlega og þá var verið að setja upp sýningu um jólamunstur á textíl frá um 1950 – 1970. Kynnt er munstur og myndir eftir marga fræga hönnuði og hér neðar getið þið séð nokkrar myndir með allskyns munstri sem þið kannist örugglega við frá liðnum jólum. Sýningin heitir: „Tryckt till jul“ og verður opnuð formlega fyrsta desember.
Með mér var vinkona mín Sigurbjörg Óskardóttir sem er fædd og uppalin í síldarfirðinum Seyðisfirði en hún er mikil hannyrða listakona og heima í Lysekil átti hún fjöldann allan af gömlum „munstur“ bókum.

Gamlar Íslenskar og Skandínavískar munsturbækur.
Látum myndirnar tala og vonandi koma upp hjá þér góðar minningar um litrík jól.

Mynd frá flóamarkaði sænsku kirkjunnar í Lysekil, í dag er hægt að kaupa þessa hér áður fyrr nokkuð dýra sérhönnuðu jóladúka á nokkrar krónur stykkið.
Lifið heil.
Kær kveðja.
Nonni Björgvins
LISTA YFIR AÐRAR GREINAR EFTIR JÓN ÓLAF BJÖRGVINSSON FINNUR ÞÚ HÉR.
Texti og ljósmyndir:
Jón Ólafur Björgvinsson
Aðrar myndir: Steingrímur Kristinsson, birtar með leyfi Ljósmyndasafns Siglufjarðar.