Jarðskjálftahrina hefur að undanförnu dunið á íbúum Norðurlands og ekki síst á Siglufirði. Sá stærsti sem komið hefur að þessu sinni var 5.7 að stærð og stendur hrinan enn yfir, en er þó í rénun.
Fréttaritari man óljóst eftir jarðskjálftanum 1963, enda þá aðeins fimm ára að aldri. “Man ég þó að kojurnar sem við systkinin sváfum í var söguð niður, því móður okkar til mikillar skelfingar fór hún af stað í látunum og dansaði úti á miðju gólfi. Allt var á tjá og tundri, myndir skakkar á veggjunum og var sofið í flatsæng á gólfinu það sem eftir var nætur. Nefndi hún meðal annars stjörnubjartan himininn og hvað það hafi verið magnað að sjá tindrandi himinn og hlusta á kirkjuklukkurnar, sem fóru að hringja á meðan skjálftinn reið yfir”
Frásögnina hér að neðan ritaði Steingrímur Kristinsson um upplifun sína á jarðskjálftanum sem reið yfir á Siglufirði 1963.
Jarðskjálftinn á Siglufirði 1963
Minnisstæð atriði frá jarðskjálftanum sem átti upptök í mynni Skagafjarðar árið 1963, og fannst mjög greinilega á Siglufirði, enda yfir 7 samkvæmt Richter skala.
Það var einhvern tíma laust eftir klukkan 23:00 kvöldið sem jarðskjálftinn dundi yfir. Ég var nýkominn frá vinnu sem sýningarmaður í Nýja Bíó.
Ég sat við eldhúsborðið í kjallaraíbúð sem við hjónin áttum við Hvanneyrarbraut 62 á Siglufirði. Ég var að lesa í Morgunblaðinu um hörmungarnar sem dunið höfðu nokkrum dögum áður yfir eyjuna Bali, (minnir mig að eyjan hafi heitið) en þar höfðu bæði jarðskjálftar og eldgos dunið yfir með miklum hörmungum og eyðileggingum.
Skyndilega byrjuðu kanarífuglar að garga og flögra um inni í búrinu sínu inni í eldhúsinu þar sem ég sat. Nokkrum sekúndum síðar heyrðust miklar drunur, sem ég á því augnabliki, áttaði mig ekki á hvaðan kæmu.
Ég hélt raunar augnablik, að skriða væri að koma niður fjallið vestan við húsið. Ég féll fljótt frá þeirri skoðun, þar sem nú heyrðust drunurnar greinileg koma úr norðri og sekúndum síðar fór allt að nötra. Skáphurðir opnuðust, leirtau titraði og borðið og stólinn sem ég sat á færðust til ásamt mér um rúman metri fram á gólfið. (Húsið stendur á klöpp)
Sennilega hefur þetta staðið í 15-20 sekúndur?, en virtist sem heil eilífð. Konan mín Guðný Ósk, hafði verið háttuð og kom hlaupandi fram á ganginn. Hún vatt sér að rafmagnstöflunni og ætlaði að skrúfa öryggin laus. Ég stöðvaði hana og sagði það óþarfa þar sem við ættum nú heima í steinhúsi en ekki timburhúsi sem áður.
Um sama leiti fór rafmagn af öllum bænum. Konan mín róaði svo krakkana sem höfðu verið sofandi en höfðu aðeins rumskað, án þess þó að gera sér grein fyrir því hvað skeð hefði. Við fórum síðan upp á efri hæðina þar sem krakkar Arnórs Sigurðssonar og Heiðu voru, en hjónin voru ekki komin heim. Þau voru að þrífa í Barnaskólahúsinu, þar sem Addi var umsjónarmaður.
Uppi í íbúðinni var allt í góðu lagi og Guðný róaði börnin þar.
Síðan fór ég út til að huga að öldruðum tengdaforeldrum mínum, sem áttu heima skammt frá. Bærinn varð rafmagnslaus eins og fyrr segir.
Athygli mína og annarra sem komnir voru út, beindist að hinum heiðskíra og stjörnubjarta himni. Þetta var sjón sem ég hafði aldrei áður séð, himininn svo bjartan og þétt á milli stjarna, nánast eins og hvít grisja væri breidd um himinhvolfið.
Mér til léttis var allt í lagi hjá tengdaforeldrum mínum, þau voru róleg og yfirveguð, og báðu mig að fara aftur til fjölskyldu minnar, sem ég gerði.
Fljótlega eftir að Addi og Heiða komu heim frá vinnu sinni, fórum við hjónin og börnin að sofa. Ég svaf eins og steinn um nóttina, sem og börnin en konan taldi sig hafa orði vör við einhverja eftirskjálfta um nóttina.
Eftir að hafa mætt í vinnu um morguninn klukkan 07:00, var vart um annað talað en atburði kvöldsins og næturinnar. Flestir voru hinir rólegustu, þar á meðal ég, eins og á meðan skjálftinn stóð yfir.
En skömmu fyrir hádegið þann dag varð ég fyrst var við innibyrgðan ótta hjá mér, ótta sem lýsti sér þannig, að ekki mátti bíll keyra framhjá húsinu (trésmíðaverkstæðinu sem ég vann á), þá hrökk ég í kút og var smástund að átta mig á því að þarna var ekki jarðskjálfti á ferð heldur bíll, og / eða stundum annar hávaði.
Þetta hékk við mig í nokkra daga eftir skjálftann, viðbrögð sem ég skýri sem innbyggðan ótta eða viðbrögð við einhverju sem fyrir gæti komið.
Þar var lestur Moggans um hörmungarnar á Bali sem ég var að lesa er jarðskjálftinn reið yfir, enn í fersku minni.
En svona til fróðleiks, þá eru hér nokkrar frásagnir frá skjálftanum árið 1963, en þá kom aðeins einn skjálfti sem um munaði.
Margar sögur voru sagðar á vinnustað mínum og nágrenni, af fólki og viðbrögðum þess þegar skjálftinn reið yfir.
Ein þeirra var um hafnarverkamenn (Stúarafélag Siglufjarðar) sem voru gangandi á leið heim eftir vinnu við kolaskip (minnir mig) og voru á Gránugötunni þegar jarðskjálftinn dundi yfir með gný í fyrstu, og síðar tók jörðin að hristast undir fótum þeirra og í sama mund byrjuðu kirkjuklukkurnar að klingja af völdum skjálftans.
Þá mun Barði Ágústsson, einn stúaranna fyrrnefndu hafa sagt eitthvað á þessa leið:
“Nú er betra að vara sig, heimsendir er kominn” Sumir segja raunar að hann hafi sagt “Nú er betra að vara sig, skrattinn er kominn”
En örugglega hefur Barði sagt eitthvað krassandi, því hann var oft fljótur til svara.
Þá segir af fjórum starfsmönnum Síldarverksmiðja ríkisins sem voru á vakt, við framleiðslu á soðkjarnamjöli sem fram fór inni í Ákavíti, stóra mjölhúsinu.
Húsið er stærsta húsið á Siglufirði, bárujárnsklætt stálgrindarhús.
Talsvert mikill hávaði stafaði frá vélbúnaði þar inni vegna framleiðslunnar. En þegar húsið, gólf og vélbúnaður, þar á meðal um 8-10 metra hátt síló fór að hristast, voru starfsmennirnir sannfærðir um að nú væri komið að endalokum
Hávaðinn sem yfirgnæfði vélargnýinn var svo óskaplegur, og svo rafmagnið sem fór af fljótlega, kom mönnunum nánast úr jafnvægi. En þegar húsið fór að hristast kom mikil hreyfing á bárujárnið í þaki og veggjum hússins og um leið af þeirri orsökum yfirgnæfandi hávaði. Síðar kom í ljós við fyrstu rigningu að var víða farið að leka.
Nefnt síló í smíðum árið 1961, mynd af því hér neðst á síðunni.
Þá var önnur saga, staðfest við mig af sjónarvotti (vinnufélagi minn), að séra Ragnar Fjalar hefði verið í Taunus bíl sínum ásamt fjölskyldu, ofarlega á veginum upp að Siglufjarðarskarði, allan fyrrihluta nætur.
Þar var sjónarvotturinn einnig ásamt nokkrum fleirum. En þeir óttuðust að á eftir skjálftanum kæmi flóðbylgja. Ekki óskynsamleg ályktun.
Um hádegisbilið daginn eftir skjálftann komum við, ég og kona mín á leið úr vinnu heim í hádegismat, við í Kaupfélaginu sem þá var við Hvanneyrarbraut (nú leiguíbúðir) til að kaupa smávegis. Þar var talsverð ös og allir voru að tala um þessi ósköp sem höfðu dunið yfir kvöldið áður.
Önnur afgreiðslustúlkan sem var að afgreiða séra Ragnar Fjalar, hafði orð á því að hún hefði ekki sofið blund alla nóttina og fleiri tóku undir það sama. Þá sagði séra Fjalar, sem þá var verið að enda við að afgreiða, yfirvegaðri röddu.
“Það þarf ekkert að óttast, það á bara að treysta á guð almáttugan”
Þá gat ég, sem hafði ekki neinar sérstaka mætur á viðkomandi presti, ekki stillt mig og sagði, hátt og skýrt:
“Já eða Tánusinn”. Prestur roðnaði illa, og sagði ekki meir, hann gaf mér hornauga um leið og hann flýtti sér út.
Fáir skyldu sneiðina, en sáu að presti var brugðið. Viðstaddir fengu þó að vita ástæðuna fljótlega, eftir að farið var að spyrja um hvað ég hefði átt við.
Annað um jarðskjálfta
Fyrsti jarðskjálftinn þar sem ég var á vettvangi, var árið 1934, þá aðeins um fjögurra mánaða gamall, og því ekki til frásagnar um þann atburð, annað en það sem móðir mín sagði mér mörgum árum síðar.
Hún hafði hlaupið út úr húsi þeirra pabba og mömmu með mig í fanginu. Hún sagði að húsið hefði hrist og skolfið, leirtau dottið úr skápum, myndir af veggjum og fleira.
Þetta var þegar “Dalvíkurskjálftinn” reið yfir og olli miklu tjóni á Dalvík og nágrenni, þó svo að styrkleiki hans hafi ekki verið að talið var 6,2 til 6,3 samkvæmt richterskala. En það er önnur saga.
Skjálftahrinan sem reið yfir á Siglufirði 20-22 október 2012, var með styrkleik, yfir 4 á richterskala og einum að minnsta kosti yfir 5, var öllu áhrifaminni en sá sem skall á svæði Siglufjarðar og víðar á við Tröllaskaga árið 1963.
Margir urðu varið við skjálftahrinu fyrir og um miðnættið 20-21 , en ég varð ekki var við neinn, fyrr en um 00:12 þann 21. október, samkvæmt klukku minni á náttborðinu.
Ég hafði rétt nýlega lagst á kodda minn til svefns er ég varð var við minn fyrsta þessa nótt. Ekki fannst mér hann vera sterkur, en greinilegar drunur fylgdu honum fyrir og eftir, ásamt því að nokkrir hljómdiskar féllu úr hillu niður á gólf með tilheyrandi glamri.
Ekki fór ég þó fram úr þá til að aðgæta hvað hefði valdið þeim skelli og lokaði því bara augunum aftur.
En mér varð frekar órótt þegar sá næsti og fleiri þar á eftir hristu húsið og meðfylgjandi drunum. Þegar ég hafði talið 6 eða 7 á nokkrum mínútum, þá staulaðist ég fram úr og leit út um glugga.
Þá skall enn einn yfir og flaggstöng sem er framan við húsið hristist örlítið. Ég hristi höfuðið og skreið upp í rúm mitt aftur. Kona mín hafði ekki vaknað, og ég sá ekki ástæðu til að vekja hana, henni veitti ekki af ótrufluðum svefni.
Stuttu síðar, er ég var við það að sofna, þá sennilega rúmlega 00:30 kom einn snarpur, ég bölvaði í hljóði og snéri mér á hina hliðina.
Ég mun hafa sofnað fljótt eftir það, og vaknaði ekki við þann “stóra” upp á 5,6 sem skall á um 01:30. Ég svaf óslitið þar til á milli klukkan 6 og 7 eins og venjulega á morgnana.
Ekki verður því neitað að það var frekar óþægilegt sem um huga mans reikaði, á meðan á þessu öllu stóð, í mínu tilfelli í rúman hálftíma og minnugur þess sem náttúruöflin geta valdið. Það var mikið til i orðum eins vinar míns daginn eftir sem sagði eitthvað á þessa leið, “Ég reyndi bara að taka þessu með ró, því við getum engu ráðið um hver framvindan verður”
Margar sögur heyrði maður eftir á um fall hluta úr hillum og fleira eftir þessa nótt meðal annars í fjölmiðlum, sem bendir til að áhrif skjálftanna hafi verið misjöfn eftir því hver sagði frá og væntanlega einnig miðað við hvort hús þeirra hafi verið byggð á klöpp eða á mjúkum jarðvegi. En að mínu mati er greindarvísitala þeirra sem ekki viðurkenna smá óttatilfinningu þessa nótt, sennilega ekki mjög há.
Myndir og frásögn: Steingrímur Kristinsson
Blaðaúrklippa: Mjölnir 1963
Sjá heimildasíðu Steingríms Kristinssonar: HÉR
Sjá ljósmyndasíðu Steingríms Kristinssonar: HÉR