Unglist kynnir með stolti 17. útgáfu Elds í Húnaþingi, en hátíðin verður haldin 25.-28. júlí.

Greta Clough, framkvæmdastjóri hátíðarinnar, segir: „Í fyrra horfðum við á sögu Eldsins, til rótanna – á vinsæla atburði fortíðar, og hvernig hátíðin hefur vaxið. Í ár horfum við til framtíðar – hvað hátíðin gæti orðið, hvernig samfélagið okkar er að vaxa, og hvað framtíðin þýði fyrir okkur sem einstaklinga, sem samfélag, og í hnattrænu samhengi.

Dagskrá hátíðarinnar má skipta í þrjá aðalflokka: stórir viðburðir á aðalsviðinu sem selt er inn á, alþjóðlegir viðburðir, og samfélagssprottnir viðburðir eins og „eldur heima“ viðburðaröðin, en þeir atburðir eru sjálfstæðir atburðir sem einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki standa fyrir. Verkefnaskráin í ár er mjög spennandi, og ögrandi á köflum. Öll dagskráin kjarnast í megingildum hátíðarinnar: Gæði, fjölbreytni, erindi – um, fyrir, og með samfélaginu og að því takmarki að bera fram listadagskrá á heimsmælikvarða.“

Meðal helstu atriða hátíðarinnar má nefna:

Ljótu hálfvitarnir munu troða upp í Félagsheimili Hvammstanga, og það gerir Páll Óskar líka. Soffía Björg verður í Ásbyrgi, og í Borgarvirki má sjá og heyra bæði Högna og Díönu Sus. Hin upprennandi hljómsveit Ateria verður í Kirkjuhvammi á Hvammstanga, og Clubdub mun spila á táningaballi í Ásbyrgi.

„Það skiptir mig miklu máli að geta stutt við breiða flóru listamanna, og gefið þeim vettvang til að deila verkum sínum. Diana Sus er frábær söngvari og lagahöfundur frá Litháen, sem er nú búsett á Akureyri. Mér finnst frábært að fá tækifæri til að kynna hana fyrir áhorfendunum okkar.“

Á dagskránni eru líka alþjóðlegar verðlaunaleiksýningar frá Íran, Pólandi og Kanada, og Rísandi þögn, verðlaunuð heimildamynd frá Bangladess verður sýnd á hátíðinni.

„Mér finnst hluti af því að líta til framtíðar vera að skoða stöðu okkar í hnattrænu samhengi og nýta okkur það hve fjölbreytt samfélagið okkar er. Mér finnst stundum gleymast að þó að það sé mikilvægt að aðlagast samfélaginu sem maður býr í, þá skiptir líka máli að við deilum fjölbreytileika okkar með hvort öðru og horfum á mismunandi bakgrunna okkar og reynsluheima jákvæðum augum.“

Hátíðin hefst þann 25. júlí með þéttri dagskrá í Félagsheimili Hvammstanga allan daginn – og lýkur svo með hinum sívinsæla viðburði Mello Musika þar sem tónlistarfólk úr héraði kemur fram, og Beebee & the Bluebirds slútta svo kvöldinu.

Það eru rúmlega 40 viðburðir í boði á hátíðardögunum, og á 33 þeirra er ókeypis aðgangur.

Kíkið á eldurihun.is til að sjá alla dagskrána. Við mælum með því að fólk tryggi sér miða sem fyrst. Miða má kaupa með millifærslum eða kortum, á vefsíðu hátíðarinnar, eða á tix.is.

 

Til upprifjunar má skoða hér frétt frá Eldinum 2018