Ný bók er komin út eftir Ármann Jakobsson og ber heitið Legends. Útgefandi er Flóra menningarhús á Akureyri.
Ármann er einn afkastamesti rithöfundur okkar Íslendinga og hefur látið frá sér skáldsögur, prósa, glæpasögur, ævintýri og fræðiverk. Hann er einnig prófessor í íslenskum miðaldabókmenntum við Háskóla Íslands.
Legends er fyrsta enska þýðing á skáldverki eftir höfundinn. Um þýðinguna sá Kelsey Paige Hopkins. Legends er nett og fínlegt safn frásagna í smásöguformi. Sögurnar hafa beinar og óbeinar vísanir í Eddukvæði, en fjalla um raunveruleika og mítur 21. aldarinnar. Tilurð í veröldinni, átakanleg örlög og atburðir og hlutverk hins smáa í falli hins stóra eru umfjöllunarefnin. Verkið kom fyrst út á íslensku árið 2020 undir heitinu Goðsögur, þá sem hluti af menningarverkefninu Pastel ritröð. Íslenska útgáfan er uppseld.
Hönnun kápu var í höndum Ingibjargar Berglindar Guðmundsdóttur hjá Cave Canem hönnunarstofu á Akureyri, en kápan tengir snilldarlega
og á ævintýralegan hátt saman tíma og heima. Legends er fáanleg í verslunum Eymundsson víða um land og hjá Flóru á Akureyri. Bókin er bæði fínleg, falleg og frábær í ferðalagið og góð gjöf til enskumælandi samstarfsfólks, ættingja og vina.
Útgáfuhóf verður haldið í verslun Eymundsson í Austurstræti fimmtudaginn 17. mars klukkan 17 – öll velkomin – höfundur, þýðandi og útgefandi verða á staðnum.