Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er boðuð stórsókn í menntamálum þar sem lögð er rík áhersla á að efla menntun í landinu með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Fram kemur að mikilvægt sé að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara, efla faglegt sjálfstæði þeirra og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum. Einnig er dregið fram að bregðast þurfi við kennaraskorti í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og stéttarfélaga.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kynnti í dag fyrstu aðgerðirnar sem ráðist verður í til þess að mæta þessum áskorunum en þær eru:

Launað starfsnám 
Frá og með næsta hausti býðst nemendum á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi launað starfsnám. Markmið með þeirri aðgerð er að hvetja nemendur til þess að klára nám sitt á tilsettum tíma og að þeir hefji störf sem fyrst að námi loknu.

Starfsnámið skal vera í minnst 50% starfshlutfalli við leik- eða grunnskóla í eitt skólaár og fá nemendur greitt samkvæmt kjarasamningi. Kennaranemar njóta leiðsagnar reynds kennara á vettvangi og þess verður gætt að þeir hafi jafnframt svigrúm til að vinna að lokaverkefnum sínum.

Um er að ræða sértækar aðgerðir en fyrirkomulagið verður endurmetið reglulega með það að leiðarljósi að efla kennaranám enn frekar. Meirihluti kennaranemanema á meistarastigi eru nú þegar starfandi í leik- og grunnskólum landsins. Til að tryggja að sem flestir nemar komist í launað starfsnám er nauðsynlegt að skólar, sveitarfélög, háskólar og mennta- og menningarmálaráðuneyti vinni náið saman.

Námsstyrkur til nemenda 

Nemendur á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi geta sótt um námsstyrk frá og með næsta hausti. Markmið styrksins er að auðvelda nemendum að sinna lokaverkefnum sínum samhliða launuðu starfsnámi og skapa hvata til þess að nemendur klári nám sitt á tilsettum tíma. Styrkurinn nemur alls 800.000 kr. og greiðist í tvennu lagi – fyrri greiðslan er bundin við skil verkefnisáætlunar lokaverkefnis og hin síðar við skil á lokaverkefni innan ákveðins tíma.

Áætlaður árlegur kostnaður ríkisins vegna þessa nemur um 200-250 milljónum kr.

Styrkir til starfandi kennara til náms í starfstengdri leiðsögn
Mikilvægt er að fjölga kennurum í íslenskum skólum sem hafa þekkingu á móttöku nýliða í kennslu. Slíkir leiðsagnakennarar skipta lykilmáli við að sporna gegn brotthvarfi nýútskrifaðra kennara úr starfi en mest hætta er á brotthvarfi úr kennslu fyrstu þrjú árin.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun styrkja Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands til að fjölga útskrifuðum kennurum með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn. Námið er þrjár annir og sniðið að starfandi kennurum.
Forsendur þessa styrks verða annars vegar þær að skólastjórnendur styðji umsókn kennara í námið og hins vegar að tryggja þurfi jafna dreifingu þessara styrkja milli skóla og landshluta í því augnamiði að sem flestir skólar landsins hafi kennara innan sinna raða með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn.

Áætlaður kostnaður ríkisins vegna þessa eru 5 milljónir kr. á ári í fimm ár.

Mikilvægt samstarf
Tillögurnar að aðgerðunum voru unnar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Háskólann á Akureyri, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Heimili og skóla og Samtök iðnaðarins. Að auki komu að vinnunni fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.

Næstu skref
Til skoðunar er einnig hvaða aðgerðir geta styrkt nemendur í öðru kennaranámi, s.s. framhaldsskóla-, tónlistar- og listgreinakennslu og hvernig skapa megi fleiri hvata til þess að fjölga kennaranemum, til dæmis gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna.

Staðreyndir um stöðuna:

• Aðeins 28% stöðugilda í leikskólum er mönnuð leikskólakennurum. Það vantar leikskólakennara í um 1800 stöðugildi til þess að uppfylla ákvæði laga um hlutfall fagmenntaðra leikskólakennara.

• Árið 2018 útskrifuðust 22 leikskólakennarar og 77 grunnskólakennarar frá Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands.

• Nýnemum í grunnnámi í leik- og grunnskólafræðum fækkaði um 40% á árunum 2008-2018.

• Leiðbeinendum í grunnskólum hefur fjölgað verulega á síðustu árum, úr 272 árið 2016, 443 árið 2017 í 507 á þessu skólaári 2018/19.

• Óhagstæðasta sviðsmynd um mannaflaþörf og óbreyttan fjölda útskrifaðra kennara kallar á að manna þurfi tæplega 1200 kennarastöður í grunnskólum með starfsfólki án kennsluréttinda eftir fjögur ár. Þá yrði hlutfall starfsfólks starfandi við kennslu án kennsluréttinda 25% en samsvarandi hlutfall var 8,6% árið 2017.

Glærukynning á blaðamannafundi
Nýliðun kennara: kynning aðgerða

 

Af vef Stjórnarráðsins