Reynir B. Eiríksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Vélfags ehf. Reynir tekur við af Bjarma Sigurgarðarssyni og Ólöfu Ýr Lárusdóttur sem verið hafa framkvæmdastjórar síðan þau stofnuðu fyrirtækið árið 1995.

Fyrst í stað þjónustaði Vélfag fyrirtæki í sjávarútvegi en fljótlega hófu starfsmenn fyrirtækisins að þróa og framleiða vélar fyrir fiskvinnslu. Óhætt er að segja að Vélfag hafi lagt mikinn metnað og kraft í þróun á vélum, sem hefur skilað mjög góðum árangri.

Breyting hefur einnig verið gerð á framkvæmdastjórn félagsins, en í henni verða auk Reynis, Bjarmi Sigurgarðarsson þróunarstjóri, Sigrún Á. Sigmundsdóttir fjármálastjóri, Reimar Viðarsson þjónustustjóri og Ragnar Guðmundsson sölustjóri.

Reynir hefur starfað fyrir Vélfag sem framleiðslustjóri. Reynir hefur langa reynslu af stjórnun sem framkvæmdastjóri Ferrozink og framleiðslustjóri bæði hjá Norðlenska og Skinnaiðnaði.

Bjarmi og Ólöf hafa staðið í stafni frá upphafi og segjast ánægð á þessum tímamótum: „Við höfum rekið fyrirtækið frá stofnun og erum mjög sátt. Það er mjög ánægjulegt að sjá á hvaða vegferð fyrirtækið er og að fá jafn öflugt fólk í framkvæmdastjórn þess og raun ber vitni. Segja má að við höfum verið vakin og sofin yfir félaginu frá fyrsta degi en nú getum við sleppt hendinni af daglegum rekstri og snúið okkur alfarið að frekari vöruþróun.“

Reyni líst vel á verkefnið. „Vélfag er mjög áhugavert fyrirtæki og mér þykir ánægjulegt að fá að taka þátt í frekari uppbyggingu þess. Ég hef mikla trú á félaginu, afar spennandi tímar eru framundan og ég er sannfærður um að Vélfag getur orðið gríðarlega öflugt.“

Finnbogi Baldvinsson er stjórnarformaður Vélfags. „Vélfag er öflugt fyrirtæki sem hefur mikla möguleika til vaxtar. Það skref sem er stigið með ráðningu í helstu stjórnunarstöður styrkir félagið verulega,“ segir Finnbogi. „Að mínu viti er Vélfag vel geymt leyndarmál á Eyjafjarðarsvæðinu. Þar hefur verið unnin mjög mikil þróunarvinna sem ekki hefur farið hátt. Stoðir fyrirtækisins eru orðnar
mjög sterkar sem er nauðsynlegt á þeim spennandi tímum sem framundan eru.“

Forsíðumynd er af Reyni B. Eiríkssyni, nýráðnum framkvæmdastjóra Vélfags ehf.

Mynd/aðsend