Í gær, laugardaginn 25. ágúst, rann upp síðasti keppnisdagurinn í götuspyrnu á Akureyri þetta árið.

Meðal þátttakenda var Guðni Brynjar Guðnason, sem unnið hefur allar keppnir í sumar, í sínum riðli. Keppnirnar til Íslandsmeistaratitils voru þrjár í sumar, og sá sem er stigahæstur eftir allar keppnirnar er Íslandsmeistari.

Guðni Brynjar keppti einnig í B. Jensen spyrnunni fyrr í sumar, og vann hana líka.

Siglfirðingurinn Guðni Brynjar Guðnason er því Íslandsmeistari 2018 í götuspyrnu,
í 6 cylindra flokki.

BMW bíllinn sem Guðni Brynjar hefur sjálfur byggt upp til keppni í götuspyrnu. Bíllinn hefur staðist allar keppnir með prýði, ekkert bilað, en eftir sumarið verður vélin tekin í sundur til skoðunar, og hestöflum fjölgað um a.m.k. 100, fyrir átökin næsta sumar.

 

.

 

Lágmarksfjöldi bíla í hverjum riðli er þrír bílar, og tvísýnt var alla síðustu viku um að sá fjöldi næðist í 6 cylindra flokki, og að morgni keppnisdags voru aðeins tveir bílar skráðir til keppni, sem dugði ekki til að keppnisfært væri í flokkum.

 

Frá keppninni í gær.

 

Siglfirðingurinn Guðni Sveinsson, faðir Guðna Brynjars, var fenginn til að vera 3. keppandi í riðlinum, “enda góður til uppfyllingar” eins og hann sagði sjálfur í viðtali við Trölla.is, og var drifið í að kaupa viðeigandi tryggingar og ganga frá skráningu hans til keppni. Keppendur þurfa að vera með hjálm, en erfitt reyndist að finna nógu stóran hjálm fyrir Guðna S, “af því að ég er með stærsta haus á Íslandi, sem er staðfest af lögreglunni”, sagði Guðni S. og vitnaði í að þegar hann var sjálfur lögreglumaður hér áður fyrr, undruðust menn höfuðstærð hans þegar kom að því að sauma lögregluhúfu á hann.

Guðni S. fór 3 ferðir í keppninni og setti tímamet – ekki hraðamet – með því að vera lengur en allir aðir. “Eftir 3 ferðir var ég rekinn úr keppninni fyrir að fara svona hægt, því annars hefði keppnin ekki klárast í dag” sagði Guðni Sveinsson.

Hér má sjá eldri frétt á trolli.is um bílinn og þá feðga.

 

Frétt: Gunnar Smári Helgason
Myndir: Gunnar Smári og Guðni Sveinsson