Nýr kaupfélagsstjóri hefur verið ráðinn ráðinn til Kaupfélags Vestur-Húnvetninga (KVH)
Stjórn Kaupfélags Vestur-Húnvetninga hefur ráðið Björn Líndal Traustason í starf kaupfélagsstjóra Kaupfélags Vestur-Húnvetninga.

Björn Líndal hefur síðustu ár starfað sem sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Strandamanna, en gegndi áður stöðu framkvæmdastjóra Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Björn Líndal er með Bs gráðu í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst og Ma gráðu í skattarétti og reikningsskilum frá Háskóla Íslands.

Björn tekur við starfinu af Reimari Marteinssyni þann 1. nóvember næstkomandi.

Á facebooksíðu KVH segir Björn Líndal „Kaupfélagið hefur starfað frá árinu 1909 og er því 111 ára. Það eru ekki mörg fyrirtæki á Íslandi sem eiga svo langa og farsæla sögu. Ég tek við afar góðu búi þar sem Kaupfélagið hefur eflst mjög á undanförnum árum undir öruggri stjórn Reimars Marteinssonar sem stýrt hefur félaginu s.l. 13 ár. Ég finn til mikillar ábyrgðar og auðmýktar gagnvart starfinu og sögu Kaupfélagsins,“

Kaupfélag Vestur-Húnvetninga var stofnað þann 20. mars 1909 á Hvammstanga og er félagssvæði þess Húnaþing vestra. Félagsmenn eru 383 talsins í 6 félagsdeildum. Á Hvammstanga rekur félagið kjörbúð, byggingarvöruverslun og búvöruverslun.

Félagið á einnig og rekur fasteignir sem hýsa m.a. starfsemi Selaseturs Íslands, Fæðingarorlofssjóðs og veitingastaðarins Sjávarborgar. KVH á einnig hlut í nokkrum fyrirtækjum m.a. 50% hlut í Sláturhúsi KVH ehf (SKVH).

Rekstartekjur félagsins á árinu 2019 námu um 864 milljónum og var hagnaður af rekstri samstæðunnar rúmar 50 milljónir króna. Heildareignir félagsins námu um 728 milljónum króna og var eigið fé í árslok 2019 um 518 milljónir króna. Fjöldi ársverka hjá félaginu eru 19.


Fréttin hefur verið uppfærð.