Umsóknarfrestur um starf sóknarprests í Ólafsfjarðarprestakalli, Eyjafjarðar og Þingeyjarprófastsdæmi, rann út 7. júlí sl.

Auglýst var eftir sóknarpresti til þjónustu við prestakallið og miðað við að viðkomandi gæti hafið störf sem fyrst.

Tvær sóttu um starfið.

Kjörnefnd kaus sr. Guðrúnu Eggertsdóttur, mag. theol., til starfans og hefur biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, staðfest ráðningu hennar.

Í samræmi við þær breytingar sem nú hafa orðið á starfsmannamálum þjóðkirkjunnar er Guðrún ráðin ótímabundið í starfið með hefðbundnum uppsagnarfresti.

Guðrún Eggertsdóttir er fædd 12. janúar 1964 og ólst upp á Jörfa á Kjalarnesi, dóttir Eggerts Ólafssonar og Þóru Sigrúnar Gunnarsdóttur sem er látin. Hún lauk kennaraprófi frá Emerson Collage 2004, stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti vorið 2013 og mag.theol., prófi frá guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands 2020. Guðrún hefur gengt ýmsum störfum í gegnum tíðina. Hún var verslunarstjóri hjá Blómahafinu í átta ár, 1992-2000. Guðrún fór til náms til Bretlands og stundaði þar nám í fjögur ár, 2000-2004, til að öðlast réttindi sem Waldorf-kennari. Hún kom að loknu námi til Íslands og hóf störf sem Waldorf-kennari hjá Waldorf-skólanum Sólstöfum og kenndi þar til ársins 2015. Guðrún hóf nám við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands haustið 2014. Meðfram námi vann hún á sambýli við Vesturbrún í Reykjavík og allt til dagsins í dag. Hún starfaði í Grafarvogskirkju frá hausti 2018, og sá þar um eldriborgarastarf kirkjunnar og leysti af sem kirkjuvörður. Eiginmaður hennar er Jón Viðar Óskarsson, löggiltur rafverktaki. Eiga þau þrjú uppkomin börn auk sex barnabarna.

Í Ólafsfjarðarprestakalli er ein sókn, Ólafsfjarðarsókn. Í prestakallinu eru tvær kirkjur, Ólafsfjarðarkirkja og Kvíabekkjarkirkja. Áskilinn er réttur til að skilgreina viðbótarskyldur við prófastsdæmið og önnur prestaköll innan þess, sem og við Þjóðkirkjuna – Biskupsstofu og aðra kirkjulega aðila.

Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestakalla um allt land með sameiningum tveggja eða fleiri í eitt stærra prestakall án fækkunar presta.

Ofangreind þjónusta var auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera mætti að biskupafundur legði tillögur fyrir kirkjuþing er vörðuðu m.a. Ólafsfjarðarprestakall og sem kynnu að leiða til breytinga á skipan prestakalla í prófastsdæminu, hljóti þær samþykki kirkjuþings.

Mynd og heimild/ Kirkjan.is