Á 339. fundi sveitarstjórnar Húnaþings vestra var samþykkt að ráða Mariu Gaskell sem skólastjóra Tónlistarskóla Húnaþings vestra. Maria hefur langa reynslu af tónlistarkennslu og stjórnun bæði hér á landi og erlendis.
Maria er með B.A. gráðu í tónlist og ensku frá Christ Church háskóla í Bretlandi. Hún hefur einnig lokið P.G.C.E gráðu í tónlistarkennslu frá SPA háskóla í Bretlandi ásamt M.Ed. gráðu í tónlist og skapandi listum frá Exeter háskóla í Bretlandi.
Maria hefur starfað sem tónlistar- og tónmenntakennari í yfir þrjá áratugi. Þau hljóðfæri sem hún hefur kennt á eru m.a. píanó, saxafónn, blokkflauta, gítar, harmonikka, klarinet auk söngs. María hefur sett upp söngleiki og samið tónlist í samvinnu við nemendur. Hún hefur gegnt stöðu deildarstjóra og sviðsstjóra tónlistardeildar við nokkra tónlistarskóla, í Bristol, Seyðisfirði, Swiss og London.
Maria kom fyrst til Íslands árið 1991 og kenndi þá við Tónlistarskóla Austur-Húnavatnssýslu og Húnavallaskóla þar sem hún stjórnaði einnig hljómsveitum og kórum. Maria bjó í 13 ár á Seyðisfirði og starfaði þar sem kennari og organisti. Þar kom hún að ýmsum verkefnum s.s. stjórnun kóra og hljómsveita ásamt því að starfa með leikfélaginu.