Blússveit Þollýjar var að senda frá sér glænýtt frumsamið lag sem ber heitið Nobody knows. Lagið er hugljúf og róleg blús-skotin ballaða sem er komin í spilun á FM Trölla.
“Að breyta tregafullum lífsreynslum yfir í fallega tónlist eru forréttindi mín sem tónlistarkonu” segir Þollý Rósmunds söngkona og forsprakki Blússveitarinnar. Þannig varð þessi blús skotna ballaða til.
Frumsamið lag og texti eftir Þollý sem Friðrik Karlsson, gítarleikari hljómsveitarinnar Mezzoforte, útsetti á sinn snilldarlega hátt, auk þess að spila á gítar, en hann hefur þann eiginleika að breyta öllu í gull sem hann kemur nálægt. Tryggvi Hübner leikur einnig á gítar í laginu. Jonni Richter plokkar bassann og Fúsi Óttars lemur húðir. Njótið með því að koma ykkur vel fyrir í hægindastól, slaka á og leyfa tónlistinni að flæða til ykkar.