Sveinn Arnar er organisti í Víðistaðakirkju en er fæddur og uppalinn í Skagafirði.

Þann 8. september s.l. kom út lag í tengslum við alþjóðadag sjálfsvígsforvarna sem var þann 10. september og fékk nokkra athygli á samfélagsmiðlum.

Lagið er að hluta til samið í minningu vinar Sveins Arnars, sem féll fyrir eigin hendi fyrir tveimur árum. 

Þetta er nokkuð klassísk kraftballaða, grípandi og textinn góður. Mikið í útsetninguna lagt og gefið út bæði á ensku og íslensku. 

Lagið sem heitir Lítið ljós / Tender Light, verður leikið á FM Trölla í dag, í þættinum Tíu Dropar sem er á dagskrá alla sunnudaga kl. 13 – 15.

Lítið ljós / Tender Light
Söngur: Ásta Marý
Lag: Sveinn Arnar
Texti: Hinrik Már Jónsson
Enskur texti: Tómas Guðmundsson

Lagið á Spotify á íslensku

Lagið á Spotify á ensku

Myndband á íslensku

Myndband á ensku 

Sveinn Arnar segir um lagið:
Í fyrravetur fæddist lag hjá mér við ljóð eftir mág minn, Hinrik Má Jónsson. Þann 19. október 2019 lést Lárus Dagur Pálsson æskuvinur minn. Lárus var fæddur og uppalinn í Varmahlíð í Skagafirði. Hann féll fyrir eigin hendi eftir stutt en mjög hörð veikindi. Þetta var öllum hans góðu vinum og kunningjum, mikið áfall. En stærstur var missir fjölskyldu hans. Lárus var einstaklega skemmtilegur maður, mikill fjölskyldumaður og stór karakter. Við Hinrik tókum höndum saman og ég setti lag við ljóð Hinriks. Þessi vinna hefur verið góð, gefandi og margan hátt græðandi. Ég fékk Baldur Ketilsson upptökumann til að vinna lagið með mér og er það fullunnið. Lagið er tileinkað minningu Lárusar en líka öllum þeim sem hafa fallið fyrir eigin hendi, upplifað ástvinamissi og aðstandendum þeirra. Ég fékk góða söngkonu, Ástu Marý Stefánsdóttur til að syngja lagið. Lagið kom út þann 8. september, bæði á Spotify og youtube. Myndbandið gerði Heiðar Mar Björnsson, kvikmyndagerðarmaður á Akranesi.

Ég hef fengið ómetanlegan stuðning frá ættingjum og vinum, sem hafa stutt þetta verkefni með fjárframlögum eða góðri hvatningu. 30% af hverri upphæð renna til Pieta samtakanna en samtökin sinna forvarnarstarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur. Þessi samtök hef ég sjálfur stutt í nokkur ár. Með framlögum í gegnum tónleikahald en einnig með föstu, mánaðarlegu framlagi. Lagið hefur fengið góð viðbrögð og töluverð dreifing hefur verið á því á samfélagsmiðlum.

Þann 19. október s.l., á dánardegi Lárusar, afhenti ég síðan Pieta samtökunum afrakstur þess sem lagið hefur gefið af sér.