Lögreglan á Norðurlandi eystra hvetur þá ökumenn sem eiga eftir að huga að dekkjaskiptum, að skipta út nagladekkjunum sem fyrst.

Í ljósi veðurspár næstu daga er algjör óþarfi að vera á nagladekkjum núna. Lögreglan hefur skilning á því að það er háannatími hjá dekkjaverkstæðum á svæðinu um þessar mundir, en ítrekar þó hér með, að ökumenn bera ábyrgð á því hvernig bifreið sem þeir aka er útbúin.

Með hækkandi sól hefur talsvert borið á hraðakstri á svæðinu og því vill lögreglan beina þeim tilmælum til ökumanna að þeir flýti sér hægt. Nú er mikið af nýjum vegfarendum í umferðinni, m.a. á reiðhjólum og bifhjólum, og því afar mikilvægt að sýna aðgæslu. Sérstaklega er viðbúið að reiðhjólamenn verði áberandi í umdæminu næstu vikur og mánuði. Sem fyrr er nauðsynlegt að allir í umferðinni sýni tillitssemi því þá gengur allt betur og öruggar fyrir sig.

Þá upplýsist það einnig hér með að lögreglumenn hjá embættinu munu næstu daga, sem og í allt sumar halda uppi öflugu hraðaeftirliti hvort sem það er innanbæjar eða utan þéttbýlis.

Myndir/Lögreglan á Norðurlandi eystra