Átta ofurhugar á svifvængjum birtust á Siglufjarðarflugvelli á laugardagskvöldið 21. ágúst, hófu sig á loft og lentu aftur um tveimur tímum síðar.

Þá höfðu þeir flogið yfir Hólsdal, bak við Hólshyrnu, yfir Héðinsfjörð og allt til Ólafsfjarðar – og aftur til baka með ströndinni. Að jafnaði í sjö til níu hundruð metra hæð hangandi á einum væng og með öflugan hreyfil á bakinu.

Þeir eru frá fimm löndum, Englandi, Þýskalandi, Frakklandi, Rúmeníu og Bandaríkjunum og þetta er fjórða sumarið sem þeir koma til Íslands, ferðast um í smárútu, hefja sig til flugs á völdum stöðum og skoða landið svífandi í þessari miklu hæð.

Spurður hverjar væru helstu hætturnar í þessu flugi svaraði Stefan Prisecaru, sá sem leiðir flugið, að það væri vatnið; sjó og stöðuvötn forðuðust þeir eins og heitan eldinn. Ef þeir lentu í vatni sykkju þeir á svipstundu og dæju. Öryggi þeirra fælist í vera í sem mestri hæð, ef dræpist á mótornum þá hefðu þeir möguleika á að svífa langar leiðir og velja sér lendingarstaði.

Þeir séu í stöðugu talstöðvasambandi sín á milli og gættu fyllsta öryggis.

Allnokkrir áhorfendur á jörðu niðri þakka kærlega fyrir þessa skemmtilegu heimsókn – og einnig er Stefan þakkað fyrir ljósmyndirnar sem hann sendi til birtingar hér á trolli.is.

Texti : ÖK


Stefan á vængnum – mynd: ÖK
Yfir Víkurdal Héðinsfirði – mynd: Stefan Prisecaru
Mynd: Stefan Prisecaru
Hvanndalabjarg – mynd: Stefan Prisecaru
Við Hvanndalabjarg – mynd: Stefan Prisecaru
Torkennileg fjöll – mynd: Stefan Prisecaru
Hvanndalir, Siglunes fjær – mynd: Stefan Prisecaru
… og svo lentu þeir, einn af öðrum – mynd: ÖK