Lögreglan á Norðurlandi vestra stöðvaði á mánudaginn ökumann sem ók bifreið sinni á 170 km/klst. á þjóðvegi 1 í Blönduhlíð í Skagafirði þar sem hámarkshraði er 90 km/klst. Ökumaður bifreiðarinnar ók bifreiðinni á 80 km/klst. umfram leyfilegan hámarkshraða.
Ökumaðurinn þurfti að greiða 240.000 kr. sekt á vettvangi sem og að honum var gert að hætta akstri bifreiðarinnar og þurfti farþegi bifreiðarinnar að taka við. Um erlendan ferðamann var að ræða.
Lögreglan á Norðurlandi vestra hefur verði með mjög öflugt umferðareftirlit það sem af er ári og þann 1. september voru kærur vegna umferðarlagabrota 5.399 og af því voru 5.077 vegna hraðaaksturs. Eru þetta sambærilegar tölur og fyrir árið 2018, en það ár fækkaði umferðaróhöppum í umdæminu um 26% frá árinu á undan. Slysatölur fyrir árið 2019 eru sömuleiðis sambærilegar við árið á undan.
Álagðar sektir vegna umferðarlagabrota á fyrstu átta mánuðum ársins hjá embættinu eru alls rúmar 322 milljónir króna en rekstrarframlag ríkisins til embættisins á sama tímabili er u.þ.b. 245 milljónir króna. Embætti lögreglustjórans á Norðurlandi vestra er því að skila 77 milljónum í ríkissjóð á umræddu tímabili, sem er vel, að ógleymdum þeim sparnaði sem fækkun umferðaslysa hefur í för með sér sem er gríðarlegur og er í raun vart hægt að meta til fjár.
Sýnileg löggæsla á þjóðvegum landsins er öflug forvörn og samkvæmt tölunum hér að ofan er ljóst að sýnileg löggæsla á vegum á Norðurlandi vestra er að hafa tilætluð áhrif.