Lesandi hafði samband við Trölla.is á dögunum og benti á að það væri kominn olíutankur við golfskálann í Skógræktinni í Skarðsdal. Viking Heliskiing Iceland er með golfskálann á leigu.

Trölli.is fór á stúfana til að kynna sér málið og sendi fyrirspurn á Ármann Viðar Sigurðsson deildarstjóra tæknideildar Fjallabyggðar. Svaraði hann fyrirspurninni eftirfarandi “Fjallabyggð gefur ekki leyfi fyrir eldsneytistönkum og hefur því ekki upplýsingar varðandi málið. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands vestra hefur eftirlit með þessu.” Kom einnig í ljós að eigendur golfskálans höfðu ekkert með olíutankinn að gera.

Þyrlurnar taka eldsneyti úr tanknum

Einnig hafði Trölli.is samband við Kristrúnu Halldórsdóttur formann Skógræktarfélags Siglufjarðar, hafði ekki verið haft samráð við hana, hún er alfarið á móti þessum olíutank. Jafnframt hefur hún áhyggjur af fuglalífi í grenndinni og sinubruna.

Haft var samband við Ámunda Gunnarsson slökkviliðsstjóra á Siglufirði, ekkert samráð var haft við hann og taldi hann jafnframt að eðlilegra væri að aðstaðan á flugvellinum væri notuð.

Kristrún Halldórsdóttir formaður Skógræktarfélags Siglufjarðar hefur áhyggjur af fuglalífi og sinubruna í nágrenni tanksins

Haft var samband við heilbrigðisfulltrúa Norðurlands vestra. Sigurjón Þórðarson heilbrigðisfulltrúi þakkaði Tölla.is fyrir fyrirspurnina, telur hann að umfjöllun um umhverfismál sé af hinu góða.  Reglugerð um varnir gegn olíumengun frá starfsemi í landi nr. 884/2017 fjallar m.a. um hvernig tryggja megi fullnægjandi mengunarvarnir við meðhöndlun og geymslu olíu.

Reglugerðin er mjög skýr hvað varðar kröfur til bensínstöðva og olíubirgðastöðva, en opnari til túlkunar þegar komið er að neyslugeymum sem eru á athafnasvæði fyrirtækja líkt og á við í tilfelli þyrluþjónustunnar sem staðsett er í Golfskálanum á Siglufirði og fyrirhugað er að starfrækja ár hvert frá mars og fram í maí. Við skoðun á tanknum, þá virtist sem hann uppfyllti kröfur sem fram koma í reglugerðinni til lekavarna og frágang, ef frá er talið að bæta má árekstrarvarnir. Heilbrigðiseftirlitið á von á frekari gögnum til staðfestingar á þessu mati.

Ákveðið  hefur verið í samráði við rekstraraðila að auglýsa starfsleyfisskilyrði fyrir starfsemi umræddrar þyrluþjónustu og geta þá þeir sem telja sig málið varða gert athugasemdir við starfsemina sem Heilbrigðisnefnd tekur síðan afstöðu til.

 

Viking Heliskiing Iceland er með golfskálann á leigu