Norlandia samantekt fyrir Heilbrigðisnefnd Nv. 

Fjöldi kvartana hafa borist Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra vegna lyktar frá heitloftsþurrkun Norlandia síðsumars 2021, í Ólafsfirði. Heilbrigðisnefndin fól heilbrigðisfulltrúa að taka saman minnisblað um málið á fundi sínum þann 26. ágúst 2021, um stöðu málsins og næstu skref. 

Rekstur heitloftsþurrkana á fiski hafa víða verið uppspretta óánægju meðal nágranna vítt og breitt um landið og má þar nefna mál frá Suðunesjunum, Akranesi, Dalvík og Þorlákshöfn. Staðsetning fyrirtækjanna virðist ráða meiru um fjölda kvartana en mengunarvarnabúnaður og rekstur fyrirtækjanna. Heilbrigðiseftirlitinu hefur t.d. aldrei borist kvörtun um lykt frá fiskþurrkuninni á Sauðárkróki. Staðsetning og skipulag er einnig ráðandi varðandi óánægju með aðra mengandi starfsemi m.a. reyk frá brennslum, hávaða, frárennsli og sjónmengun. 

Heilbrigðiseftirlitið hefur átt góð samskipti við forsvarsmenn Norlandia og getur staðfest að mikill vilji er til þess að betrumbæta mengunarvarnir fyrirtækisins, þannig að betri sátt verði um starfsemi þess. 

  1. I. Tæki og tól Heilbrigðisnefndar 

Það er Heilbrigðisnefndar að búa svo um hnúta að Ólafsfirðingar búi við heilnæmt og ómengað umhverfi. Einn þáttur í því er að ramma inn alla þá starfsemi sem getur valdið mengun með starfsleyfisskilyrðum sem eru auglýst og allir sem málið varða geta gert athugasemd við. Núverandi starfsleyfi gildir til 18. desember 2024. 

Í ljósi þess að Heilbrigðisnefnd taldi að Norlandia hefði ekki brugðist við með fullnægjandi hætti við athugasemdum Heilbrigðiseftirlitsins, þá ákvað nefndin að endurskoða starfsleyfið og skilyrði þess áður en gildistími þess var liðinn. 

Heilbrigðisnefndinni var heimilt að gera það á grundvelli 5. gr. reglugerðar 550/2018, m.a. vegna breyttra forsendna, svo sem ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en búist var við þegar leyfið var gefið út eða ef breyting verður á aðalskipulagi sveitarfélagsins. 

Fyrirtækið andmælti endurskoðuninni og benti m.a. á að ekki lægi fyri fullnægjandi skynmat á ástandi loftgæða út frá óháðu skynmat áður en gildistími starfsleyfis yrði stytt, þannig að málið yrði nægjanlega upplýst áður en endanleg ákvörðun væri tekin. 

Niðurstaða málsins var sú að Fjallbyggð tók að sér gerð skynmats og var ætlunin að hafa það skynmat að fyrirmynd sem VSÓ ráðgjöf gerði árið 2015, vegna heitloftsþurrkunar á Akranesi. 

Af ýmsum ástæðum þá lenti það á borði Heilbrigðiseftirlitsins að gerð skynmats og var farið af stað það verkefni haustið 2020 í samstarfi við þrjá íbúa á Ólafsfirði og stóð sú athugun fram til sl. áramóta. Niðurstaða skynmatsins var í stuttu máli að lyktin frá fyrirtækinu væri innan þolanlegra marka. 

Í sumar þá urðu þrjú skakkaföll á rekstri fyrirtækisins sem leiddu til þess að lyktarmengun varð veruleg í Ólafsfirði m.a. vegna bilunar á Ósontæki, þurrkklefa og í þriðja lagi að aðgerðir til úrbóta á lokastigum framleiðslu leiddu til vanda á fyrri stigum framleiðslunnar. Öll þessi atvik auk heits sumars lögðust á eitt og ollu mikilli umræðu og fjöldi kvartana barst til Heilbrigðiseftirlitsins eða 37, sjá töflu um fjölda kvartana á liðnum árum.

Ár Fjöldi kvartana 
2017 
2018 
2019 
2020 
2021 37 

Hafa bera í huga að fjöldi kvartana sem berst til eftirlitsins segir ekki alla söguna um ástand mála en þótt fáar kvartanir hafi borist á árinu 2019, þá má ætla á umræðu á samfélagsmiðlum og á Trölla.is að óánægja hafi kraumað undir niðri og að mikill fjöldi í ár skýrist mögulega á því að óánægjan hafi brotist upp á yfirborðið í meira mæli en áður. 

Hvaða úrræði hefur Heilbrigðisnefnd, ef ekki er farið að starfsleyfi sbr. ákvæði 3.7. um að halda beri loftmengun í lágmarki? 

Þau eru einkum að finna í XVII. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir þ.e. ákvæði greina nr. 60 til 64. 

Þau eru helst að beita áminningu, takmarka eða stöðva starfsemi og beita dagsektum. Til þess að þrýsta á um úrbætur ber að beita eins vægum úrræðum og hægt er til þess að ná fram markmiðum laganna og gæta að leikreglum sem sett eru stjórnvöldum í stjórnsýslulögum m.a. andmælarétti, rannsóknarreglu og vera vel rökstudd. 

Þessar heimildir bjóða m.a. upp á að takmarkað verði það magn sem tekið verði til vinnslu t.d. yfir sumarmánuðina, með ýmsum útfærslum. 

Það úrræði sem er einfaldast í framkvæmd fyrir nefndina er að setja skilyrði við endurnýjun starfsleyfisins, en það liggja fyrir úrskurðir um að ef misbrestur er á rekstri fyrirtækja t.d. átti það við um heitloftsþurrkun á fiski í Þorlákshöfn, að þá er greið leið fyrir heilbrigðisnefnd hafna endurnýjun leyfis. 

Það ætti því að vera mikið kappsmál fyrir rekstraraðila að nota þann skamma tíma þar til starfsleyfið rennur út eða til 18. desember 2024 til þess að skapa meiri sátt um starfsemina og bæta rekstraröryggi mengunarvarna fyrirtækisins. 

Eftir því sem nær dregur lokum núverandi gildistíma starfsleyfisins þá færist ábyrgðin yfir á rekstraraðila, að sýna fram á við endurnýjun leyfis, að starfsemin hafi og muni fullnægja þeim skilyrðum sem fram koma í starfsleyfisskilyrðum. Í stað þess að nefndin þurfi að sýna fram á með skynmati eða niðurstöðum úr eftirliti að starfsemin sé ekki í samræmi við starfsleyfisskilyrðin, verður það fyrst og fremst verkefni rekstraraðila. 

  1. II. Starfsemin og framleiðsluferli 

Á neðangreindri töflu má sjá framleiðslumagn Norlandia, en á því kemur fram að ársframleiðslan í ár verður að öllum líkindum í kringum meðaltal eða um 500 tonn af þurrkuðum afurðum.

Ár Gámafj. Kg. þurrt Kg. votvigt 
2021 16 338,400 1,538,182 
2020 23 486,450 2,211,136 
2019 29 613,350 2,787,955 
2018 30 634,500 2,884,091 
2017 24 507,600 2,307,273 
2016 14 296,100 1,345,909 
2015 22 465,300 2,115,000 
2014 22 465,300 2,115,000 
2013 19 401,850 1,826,591 
2012 22 465,300 2,115,000 

i) Mengunarvarnir og lyktin

Lykt er óhjákvæmilegur fylgifiskur fiskþurrkunar og ef vel tekst til við verkun, þá er það einkum lykt af köfnunarefnis- eða amínsamböndum, sem berst að vitum fólks. Flestum finnst sú lykt ekki alslæm, en hún er af svipuðum meiði og lykt af harðfiski. 

Ef illa tekst til við verkun, þá berst frá fiskþurrkun súr illur daunn af rotnandi fiski. Um er að ræða óþef vegna einkum brennisteins efnasambanda, frá vexti örvera sem brjóta niður fiskholdið. Örverur þurfa talsverðan raka til þess að geta vaxið. Áhrifaríkasta leiðin til að koma í veg fyrir óþef, er að þurrkun gangi það hratt fyrir sig, að örveruvöxtur nái sér ekki á strik. Aðstæður til þurrkunar eru jafnan erfiðari þegar hlýtt er í veðri, en að vetri til. Markast það af því að rakainnihald kalds lofts er mjög lítið á meðan það er jafnan talsvert mikið á Íslandi á sumrin. Mikilvægt er því að draga úr framleiðslu þegar rakainnihald lofts er mikið þ.e. hlaða jafnan minna af fiski á sumrin inn í þurrklefa, en gert er á veturna. 

Hröð þurrkun er mikilvægasta mengunarvörnin, en hún kemur í veg fyrir að ólykt myndist. 

Óson eða O3 er notað til mengunarvarna, en það er hvarfgjarnt og brýtur upp lyktarsterk efnasambönd og eyðir bakteríum. Þegar óson kemst í snertingu við fiskholdið dregur það verulega úr vexti rotbaktería sem valda lyktarmenguninni. 

Þvottur á útblæstri frá fyrirtækinu þ.e. gufa frá þurrkklefum er leidd í gegnum vatnsbað blönduðu Óson eða O3 áður en hann fer út í andrúmsloftið. 

Almenn góð þrif, gott hráefni og meðferð þess skiptir afar miklu máli í að bæta lyktar mengun frá fiskvinnslum. 

  1. ii) Ferill hráefnis og mengunarvarnir 

Hráefni kemur í móttöku á jarðhæð og er þveginn í þvottakari og síðan raðað upp á grindur sem staflað er inn í fyrsta stigs þurrkklefa. Þvottavatnið er blandað með O3 , til þess að slá á fjölda örvera á yfirborði fisksins, til þess að hægja á vexti þegar fiskurinn fer inn í þurrkklefa. 

Hráefnið fer síðan í gegnum þrjá þurrkklefa 

Í þeim fyrsta sem er á jarðhæð, er hitastigið 16 °C og ræðst dvalartíminn í klefunum af annars vegar þykkt hráefnis og rakastigi þurrkloftsins. Eftir því sem rakinn í loftinu og þykktin á fiskbitanum er meiri þeim mun lengri tíma tekur að þurrka, sem dæmi má nefna að dálkar taka skemmri tíma en hausar og flök. 

Í öðrum þurrkklefa er hitastigið 24 °C, en hann er einnig á jarðhæð vinnslunnar. 

Í þriðja þurrkklefa sem er á efstu hæð er hitastigið 28 °C, en þar fer fram loka þurrkun og ræðst dvalartíminn í honum af sömu lögmálum og í 1 og 2 þ.e. þykkt fiskbita og rakastigi loftsins. Alla jafna stendur framleiðsluferlið ekki lengur yfir en í um viku. 

Útblástur frá öllum klefunum er síðan leiddur upp og í gegnum þvottaturn þar sem stöðugt rignir vatni sem er blandað með O3 . 

Klefi 3. – loftstokkur leiðir loft niður 
  1. III. Boðaðar úrbætur og skakkaföll í rekstri sl sumar. 

Skakkaföll í rekstri sl. sumar má einkum rekja til eins og að framan greinir til; rafmagnstruflana sem leiddu af sér að loftunarbúnaður stoppaði, bilun í Ozon tæki og í þriðja lagi, aðgerða sem ætlað var að bæta framleiðsluferil með aukinni loftun í klefa 3, sem höfðu þveröfug áhrif. Aukið loftstreymi úr klefa 3 leiddi til þess að loft frá klefum 1 og 2 komst ekki greiðlega út og í gegnum þvottaturninn m.ö.o. það myndaðist lofttappi með þeim afleiðingum að hráefnið þornaði seint og illa í klefum 1 og 2. Á fyrri stigum myndaðist því mikil fýla sem mengunarvarnarbúnaður réð ekki við. Það má rekja megin þorra af óánægju og kvörtunum íbúa vegna lyktar sem kom í kjölfar síðast nefnda atviksins. 

Boðaðar úrbætur eru í fyrsta lagi að hætta þurrkun næsta sumar þ.e. frá því júlí og fram í ágúst þegar skilyrði eru hve erfiðust vegna hita. 

Í öðru lagi hefur verið fjárfest í nýju og stærra O3 tæki sem stefnt er á að verði tekið í gagnið um miðjan október. 

Í þriðja lagi hefur verið farið yfir loftdælur og þær endurnýjaðar og bætt við öflugri frásogsviftum frá klefum 1 og 2, til samræmis við viftur í klefa 3. 

Í fjórða lagi breytingar á þvottaturni, m.t.t. ráðlegginga sérfræðinga á sviði mengunarvarna, sem felast í því að í stað þess að O3 sé blandað í þvottavatn í turni að þá verði útblástur leiddur í gegnum O3 gufu eftir að hafa farið í gegnum þvott í turni. 

Vonir standa til að umræddar úrbætur á loftun og þvottaturni verði einnig lokið í október. 

  1. IV. Næstu skref 

Heilbrigðiseftirlitið leggur til að látið verði reyna á hvort boðaðar úrbætur, nái tilætluðum árangri á næstu mánuðum og árangurinn verði metinn með viðhorfskönnun meðal íbúa að ári. 

Í framhaldinu verði tekin ákvörðun um hvort ásættanlegt sé að endurnýja starfsleyfi fyrirtækisins á núverandi stað. 

Sigurjón Þórðarson 
heilbrigðisfulltrúi 21. september 2021