Nýverið greindist Bovine Parainfluenza Virus 3 (BPIV3) í fyrsta skipti hér á landi. Um er að ræða veiru sem veldur vægri öndunarfærasýkingu í nautgripum. Ekki er ástæða til að grípa til sérstakra aðgerða vegna greiningarinnar en Matvælastofnun vill upplýsa um málið og um leið minna á mikilvægi sóttvarna í umgengni við nautgripi. Stefnt er að því að kanna útbreiðslu veirunnar á næstunni.
Á kúabúi á Norðurlandi-eystra þar sem kýr voru bæði með skitu og einkenni frá öndunarfærum á sama tíma, voru sýni tekin og rannsökuð með tilliti til ýmissa veira. Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum sá um að senda sýnin til erlendra rannsóknarstofa í viðeigandi rannsóknir miðað við sjúkdómseinkenni. Sýnin voru öll neikvæð m.t.t. mótefna gegn smitandi slímhúðarpest (BVD), smitandi barkabólgu (IBR (BHV1)) og smitandi öndunarfærabólgu (BRSV) en jákvæð hvað varðar mótefni gegn BPIV3.
BPIV3 er landlæg í nautgripum víðast hvar í heiminum. Veikindi eru algengust í kálfum sem ekki hafa fengið næg mótefni í gegnum brodd. Sýkingin er yfirleitt væg. Helstu einkenni eru hiti, nefrennsli og þurr hósti. Í kjölfar BPIV3 sýkingar geta komið önnur smitefni, sem valda mun alvarlegri einkennum.
Sjúkdómseinkennin í gripunum á þeim bæ sem sýkingin greindist á hér, voru aðallega þurr hósti, mæði við áreynslu og blóðnasir. Einkennin voru vægari í kálfunum en kúnum. Veikindin gengu yfir á nokkrum vikum.
Mikilvægt er að bændur og allir sem starfa sinna vegna koma inn á kúa- og nautaeldisbú gæti ávallt vel að sóttvörnum. Mikilvægustu liðir í að draga úr hættu á smitdreifingu er að klæðast hreinum hlífðarfatnaði, þrífa skófatnað vel eftir hverja heimsókn og þvo hendur.
Þó BPIV3 hafi ekki greinst áður hér á landi telur Matvælastofnun ekki ólíklegt að BPIV3 sé í einhverju mæli til staðar í nautgripum. Fyrirhugað er að taka sýni víða á landinu á næstu mánuðum til að kanna útbreiðslu veirunnar.
Veiran veldur ekki sýkingum í fólki og hefur ekki áhrif á heilnæmi mjólkur og kjöts.