Opinn kynningarfundur um tillögu að deiliskipulagi suðurbæjar Siglufjarðar verður haldinn í Ráðhúsi Fjallabyggðar 2. hæð, í dag miðvikudaginn 18. október kl. 17:00.
Á fundinum gerir Gunnar Ágústsson, skipulagsráðgjafi hjá Yrki Arkitektum, grein fyrir drögum að deiliskipulagstillögu sem liggur fyrir. Að lokinni kynningu verður opið fyrir umræður og ábendingar.
Tilgangur deiliskipulagsins er að ná óbyggðum lóðum inn í skipulag með skilmálum fyrir nýbyggingar. Markmiðið er að halda í yfirbragð byggðarinnar þannig að nýbyggingar verði hluti af núverandi heild. Samkvæmt aðalskipulagi er gert ráð fyrir að þörf verði á litlum og meðalstórum íbúðum á skipulagstímanum. Er því gert ráð fyrir fjölbreyttum stærðum húsa á nýjum lóðum sem eru þó í samhengi við núverandi byggð.
Að kynningarfundinum loknum verður tillagan auglýst formlega í 6 vikur á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar þar sem allir hafa tækifæri til að senda inn athugasemdir og ábendingar við tillöguna.
Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta eru hvattir til að kynna sér tillöguna.