Sunnudaginn 19. júlí sigldi Gunnar Júlíusson gamla fiskiskipi sínu, Keili SI 145, til hafnar á Siglufirði – en viti menn: gamli Keilir var víðs fjarri. Hér renndi að bryggju Örkin, gengin í endurnýjun lífdaga sem hið glæsilegasta lystifley. Keilir var smíðaður í Stykkishólmi árið 1975 og í eigu Siglfirðings hf síðan 2001. Fyrir fjórum árum stóð til að skipið yrði selt, en hann var þá orðinn lúinn og farinn að láta verulega á sjá. Þá varð það að ráði að endursmíða hann til nýrrar notkunar. Hinn sterklegi skrokkur þyldi a.m.k. önnur 50 ár á sjó með góðri yfirhalningu. Viðgerðin fór í fyrstu fram hér í Siglufjarðarhöfn og síðan á Húsavík.

Gunnar Júlíusson

Nú hefur Örkin lagst að bryggju með nýrri brú, laus við hvalbakinn og með öllum búnaði endurnýjuðum ofandekks. Undir þiljum er komin ný og öflug vél og fiskilestin og lúkar sameinuð í smekklegar vistarverur fyrir 10 farþega.
Og til að fagna komu Arkarinnar, var saman komin fjölskylda Gunnars og Sigþóru konu hans og margt vina og kunningja. Við nánari skoðun sést að öll vinnubrögð eru hin vönduðustu og bera siglfirskum og húsvískum iðnaðarmönnum fagurt vitni – og ekki síst stórhug eiganda.

Eins og við á í svona frétt er Gunnar spurður um tilganginn með þessum breytingum á skipinu.
“Þetta er náttúrlega bara vitleysa að standa í þessu – en ég hafði fengið áskoranir margra víða að af landinu um að varðveita bátinn, þetta gamla handverk tréskipasmíðinnar – og ég er alltaf svolítið veikur fyrir því. En Örkina hyggst ég nota fyrir fjölskylduna til siglinga meðan ég hef vilja til en gæti vel trúað að hún endi í einhverju sem tengdist ferðamannaþjónustu í nánustu framtíð.”

Gunna og Sissu og fjölskyldum þeirra er óskað til hamingju með Örkina glæsilegu.

Texti og myndir: ÖK