Í grein frá fulltrúum meirihluta framsóknar- og sjálfstæðisflokks í skipulags- og byggingarnefnd Skagafjarðar, sem birtist á vef Feykis 22. febrúar, er ástæða þess að Blöndulína 3 er nú sett á aðalskipulag Skagafjarðar sögð að frestur um ákvörðun línunnar hafi runnið út árið 2016. Staðreyndin er sú að Blöndulína 3 er ekki á framkvæmdaáætlun Landsnets til næstu þriggja ára samkvæmt kerfisáætlun og umhverfismat línunnar liggur ekki fyrir. Að setja Blöndulínu 3 á aðalskipulag er því algjörlega ótímabær ákvörðun. Meirihluti sveitarstjórnar er tilbúinn að binda sig við aðeins 3 km í jörðu og restina í möstur, þegar ljóst er að framkvæmdin kemur ekki til með að eiga sér stað á næstunni. Tækninni fleygir fram og getur gjörbreytt forsendum jarðstrengjalagna í millitíðinni.
Stóriðjulína en ekki byggðarlína
Raförkuöryggi er nauðsynlegt, en með hvaða hætti raforkan er tryggð skiptir máli. Hvort notast er við möstur með burðargetu fyrir stóriðju, sem þvera landið með tilheyrandi sjónmengun eða hvort jarðstrengir með hæfilegri burðargetu eru lagðir í jörðu.
Meirihluti skipulags- og byggingarnefndar segja hagsmuni sveitarfélagsins varðandi lagningu línunnar vera aukið afhendingaröryggi raforku í Skagafirði. Hið rétta er hinsvegar að Landsnet hefur hingað til ekki ætlað sér að tengja Blöndulínu 3 hér í firðinum. Blöndulína 3 er stóriðjulína en ekki byggðalína og á samkvæmt Landsneti aðeins að þvera fjörðinn án þess að íbúar hér hafi nokkurn ávinning af. Meirihluti sveitastjórnar kemur til með að setja fram kröfu um tengingu við byggðalínu en það er ekki tímabært að tala um aukið afhendingaröryggi þegar ekki hefur verið samið um slíkt. Nýtt umhverfismat getur að auki haft áhrif á aðalskipulagið og eru enn ein rök fyrir því að þetta sé ekki tímabært. Blöndulína 3 er ekki á nýlegu aðalskipulagi Hörgársveitar en línan þarf að tengjast þangað frá Skagafirði. Þar segir sveitarstjórn einfaldlega nei við stóriðjumöstrum, enda er ákvörðun um slíkt alfarið í höndum sveitarstjórna.
Óháður aðili leggi mat á möguleika jarðstrengjalagna
Það er athyglisvert að kynna sér ferlið frá raforkuspá til lagningar raflína. Raforkuspá er gerð af sérstökum raforkuhóp orkuspárnefndar, sem sett er saman af fulltrúum raforkufyrirtækja. Þar sitja tveir fulltrúar frá Landsneti. Sérfræðingar Landsnets setja saman kerfisáætlun m.a. út frá raforkuspá. Það er svo Landsnet sem leggur raflínurnar og rukkar fyrir notkun. Það er því óhætt að segja að Landsnet sé báðum megin við borðið í þessu ferli. Í ljósi þess hef ég sem fulltrúi VG og óháðra í skipulags- og bygginarnefnd, lagt áherslu á að sveitarfélagið fái mat óháðs aðila á möguleikum á jarðstrengslagningu um fjörðinn. Hefur það ennfremur verið krafa okkar frá því málið fór af stað. Ekki hefur verið vilji fyrir slíku af hálfu meirihlutans.
Umhverfismat Landsnets ógilt því litið var framhjá kostum jarðstrengja
Í mars 2018 ógilti úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindismála framkvæmdaleyfi Landsnets vegna Lyklafellslínu 1, frá Mosfellsbæ að álverinu í Straumsvík. Sú ógilding er byggð á þeim forsendum að ekki sé sýnt fram á að jarðstrengjakostir séu ekki raunhæfir. Að auki þótti samanburður á umhverfisáhrifum þeirra og aðal valkosts (loftlínu) ekki hafa farið fram með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir, en framkvæmdin hafði þegar farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum. Þessi úrskurður eykur ekki traust á mati Landsnets hvað jarðstrengi varðar.
50 km af 220 kV jarðstreng mögulegur á Sprengisandi en 3 km í Skagafirði
Í skýrslu Landsnets um lagningu jarðstrengja á hærri spennu í raforkuflutningskerfinu frá árinu 2015 er úttekt á lagningu jarðstrengs á Sprengisandsleið. Þar kemur fram að á 200 km leið er mögulegt að leggja 50 km af 220 kV jarðstreng í jörðu. Hvers vegna telur Landsnet að 3km sé hámark á jarðstrengjalögn í Skagafirði?
Í sömu skýrslu Landsnets er einnig úttekt á raflínu frá Kröflu til Akureyrar. Þar er talið mögulegt að leggja 12 km í jörðu framhjá Akureyri þrátt fyrir að lagning teljist fremur flókin sökum yfirferðar yfir árfarvegi og votlendi, framhjá flugvelli og í gegnum þéttbýli. Einnig kemur þar til greina að notast við núverandi 132kV streng og leggja annað strengjasett síðar komi flutningsþörf til með að aukast.
Flutningsgeta 220kV línu eins og til stendur að leggja yfir fjörðinn eru 500 MW. Hæstu álagspunktar í spennuvirkinu fyrir ofan Varmahlíð eru um 15 MW en að jafnaði er álagið um 10 MW. Hámarksafkastageta Blönduvirkjunar er 150 MW. Með þessum samanburði er ljóst að burðargeta línunnar er talsvert meiri en sú raforka sem er til staðar. Hvernig þjónar það raforkuþörf almennings? Því er ekki lögð 132 kV lína að svo stöddu sem færi öll í jörð? Slíkt er ódýrara en 220kV stóriðjulína. Verði raforkuþörf meiri í framtíðinni væri sannarlega hægt að leggja annað strengjasett í jörð síðar.
Meirihluti stendur ekki með íbúum
Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri Landsnets segir í samtali við Morgunblaðið þann 21. febrúar að Landsnet vilji tryggja öllum hagsmunaaðilum virkt samtal og gagnkvæman skilning í aðdraganda ákvarðana um framkvæmdir á Blöndulínu 3. Mér þykir það skjóta skökku við að meirihluti sveitarstjórnar Skagafjarðar ætli á sama tíma að nýta skipulagsvald sitt til að samþykkja Blöndulínu 3 í ósátt við íbúa Skagafjarðar sem sjá fram á landrask, verðfellingu jarða og sjónmengun af möstrum næstu áratugina.
Hlutverk sveitarstjórnar Skagafjarðar er að standa með hagsmunum íbúa. Það er því lágmark að sveitarfélagið fái óháða úttekt á raforkuþörf og möguleikum á lagningu jarðstrengja áður en þessi afdrifaríka ákvörðun er neydd upp á íbúa Skagafjarðar um ókomin ár.
Höfundur: Álfhildur Leifsdóttir