Pálína Fanney Skúladóttir hefur verið ráðin skólastjóri Tónlistarskóla Húnaþings vestra. Pálína var skipuð tímabundið í starfið í haust en ráðin til frambúðar á 356. fundi sveitarstjórnar þann 8. september sl.

Pálína er heimamönnum að góðu kunn en hún hefur um langt árabil verið organisti í héraðinu, stjórnað kórum, kennt tónmennt við Grunnskóla Húnaþings vestra auk þess að hafa um árabil starfað sem kennari við tónlistarskólann. Hún þekkir því starf skólans vel. Aðal hjóðfæri Pálínu er orgel en hún hefur líka lært á píanó og söng. Hún hefur sótt mörg námskeið í kórstjórn, bæði fyrir barnakóra og blandaða kóra. 

“Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni við Tónlistarskólann. Ég sé fjölmörg tækifæri til að efla starfið, t.d. með auknu samstarfi við grunnskólann en nú þegar skólarnir eru komnir undir sama þak eru möguleikarnir miklu fleiri en áður. Einnig sé ég tækifæri í því að þróa frekara samstarf við leikskólann. Við erum lánsöm í þessu samfélagi að eiga marga velunnara og fjölmarga frábæra tónlistarmenn sem eru góðar fyrirmyndir. Tónlistarskóli Húnaþings vestra stendur á gömlum og góðum grunni og það er vissulega áskorun að takast á við að leiða starf skólans áfram. Ég hlakka til vetrarins með nemendum og kennurum skólans” segir Pálína.

“Það er mikill fengur að því að fá Pálínu í þessa stöðu. Starf tónlistarskólans hefur um áratuga skeið verið mjög öflugt og mikilvægt að svo verði áfram. Það er ekki tilviljun að tónlistarlíf í sveitarfélaginu er eins öflugt og raun ber vitni. Það eru spennandi tímar framundan við skólann í glæsilegu rými sem sérhannað er til tónlistarkennslu í nýrri viðbyggingu við Grunnskólann. Við bjóðum Pálínu velkomna til starfa”, segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri.

Pálína tekur við starfinu þann 1. október nk.

Mynd/Húnaþing vestra