Markaðs- og menningarfulltrúi Fjallabyggðar, Linda Lea Bogadóttir leit við í Alþýðuhúsinu á Siglufirði og færði Aðalheiði S. Eysteinsdóttur blóm og hamingjuóskir með verðskuldaða viðurkenningu og þakkir fyrir hið gríðarlega mikla og góða starf sem hún hefur gefið til samfélagsins á síðastliðnum áratug.

Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði hlaut viðurkenninguna í ár og tók Aðalheiður Eysteinsdóttir, á móti henni við hátíðlega athöfn á Hvammstanga þann 3. maí sl. Eyrarrósarhafa 2023 er boðið að standa að viðburði á Listahátíð 2024 og mun Aðalheiður færa Listahátíð 2024 til Siglufjarðar og verður þá mikið um dýrðir í menningarlegu samhengi á Siglufirði.  

Að venju er mikið um að vera hjá Aðalheiði  en hún mun opna sýningu í Hofi á Akureyri laugardaginn 27. maí nk. kl. 14:00 og stendur sú sýning fram í ágúst. Einnig tekur hún þátt í samsýningu sem opnar á Listasafninu á Akureyri þann 2. júní nk. Fjölbreytt dagskrá verður í Kompunni í Alþýðuhúsinu í allt sumar en þann 3. júní nk. opnar Haraldur Jónsson sýningu og Þórir Hermann Óskarsson verður með Sunnudagskaffi með skapandi fólki 4. júní þar sem hann mun spjalla um tónlist og leika á píanó.

Aðalheiður fagnar 60 ára stórafmæli á árinu og í tilefni af því fer hún hringferð um landið með 60 gjörninga á 6 dögum frá 22. júní til 27. júní. Hin árlega listahátíð Frjó verður svo á sínum stað í Alþýðuhúsinu og á öðrum menningarstöðum í Fjallabyggð dagana 13. – 16. júlí nk.

Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði hefur í tvígang verið tilnefnt til Eyrarrósarinnar, árin 2017 og 2020 og mikill heiður að hafa nú, á 10 starfsári Alþýðuhússins, hlotið þessa viðurkenningu.

Fjallabyggð fagnar útnefningunni og óskar Alþýðuhúsinu og Aðalheiði S. Eysteinsdóttur en og aftur innilega til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu og fyrir hið gríðarlega mikla og góða starf sem hún hefur gefið til samfélagsins á síðastliðnum áratug.

Á myndinni er Eyrarrósarhafinn Aðalheiður S. Eysteinsdóttir ásamt markaðs- og menningarfulltrúa Lindu Leu Bogadóttur. Inn á myndina laumaði sér skemmtileg lágmynd eftir Aðalheiði sem verður meðal annarra verka á sýningu Aðalheiðar í Hofi á Akureyri frá 27. maí út ágúst. 

Á forsíðumynd er Eyrarrósarhafinn Aðalheiður S. Eysteinsdóttir ásamt markaðs- og menningarfulltrúa Lindu Leu Bogadóttur.

Mynd og heimild/ Fjallabyggð