Pestóbaka með bökuðu grænmeti

Skelin:

  • 3 dl hveiti
  • 125 g smjör, kalt úr ísskáp
  • 2 msk kalt vatn

Blandið hveiti og smjöri saman í grófa mylsnu í matvinnsluvél, með gaffli eða með fingrunum. Bætið vatninu saman við og vinnið snögglega saman í deig. Þrýstið deiginu í botn á 24 cm bökumóti með lausum botni og stingið yfir botninn með gaffli. Látið standa í ísskáp í 30 mínútur.

Fyllingin:

  • 2 paprikur, gul og rauð
  • 2 rauðlaukar
  • 1 kúrbítur
  • 1 msk ólívuolía
  • salt
  • svartur pipar
  • 3 egg
  • 2 dl mjólk
  • 1 dl pestó

Hitið ofn í 250°. Skerið paprikur í bita, rauðlauk í þunna báta og kúrbít í sneiðar. Setjið á ofnplötu, dreypið ólívuolíu yfir og kryddið með salti og pipar. Bakið í miðjum ofni í 15-20 mínútur.

Hrærið saman eggjum, mjólk og pestó.

Þegar grænmetið hefur bakast er ofnhitinn lækkaður í 200°. Forbakið bökuskelina í miðjum ofni í um 10 mínútur. Setjið þá grænmetið í botninn og hellið eggjablöndunni yfir. Bakið í miðjum ofni í 35-40 mínútur.

Berið bökuna fram með góðu salati og jafnvel salami, hráskinku og ólívum.

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit