Sunnudaginn 12. júlí kl. 17:00 mun Alexander Edelstein halda píanótónleika í Siglufjarðarkirkju. Þar leikur hann ný og nýleg verk eftir norðlensk tónskáld, þá Atla Örvarsson, Daníel Þorsteinsson og Jón Hlöðver Áskelsson. Auk þess leikur hann verk eftir Robert Schumann og Franz Schubert. Frítt er inn á tónleikana en tekið við frjálsum framlögum.
Alexander Smári Kristjánsson Edelstein er fæddur 15. maí 1998. Hann stundaði píanónám hjá Þórarni Stefánssyni við Tónlistarskólann á Akureyri frá 2009 til 2017.
Alexander hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir spilamennsku sína en hann hlaut meðal annars fyrstu verðlaun í píanókeppni EPTA árið 2012 og sérstök verðlaun sem einleikar í Nótunni sama ár. Alexander hefur haldið þó nokkra einleikstónleika og komið fram á ýmsum viðburðum sem einleikari. Þar má meðal annars nefna tónleika í Hofi í tilefni 75 ára afmælis Tónlistarfélags Akureyrar og einleik á Kirkjulistaviku Akureyrar. Alexander spilaði á tvennum tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands um páskana 2019 þar sem hann lék píanókonsert no. 20 eftir Mozart, fyrst í Hofi og síðar í Langholtskirkju.
Alexander stundar nú nám við Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Peter Máté og lýkur því vorið 2021. Á komandi hausti fer hann til skiptináms við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi, en lýkur prófi hér heima. Síðan stefnir hann á framhaldsnám erlendis.
Myndir/aðsendar