Frá og með 1. júlí, gátu íbúar á Norðurlandi leitað til Píeta samtakanna og fengið viðtöl hjá fagfólki. Þetta er fyrsta útibú félagasamtakanna úti á landi og er það til húsa í Gamla spítalanum við Aðalstræti 14 á Akureyri.

Píeta samtökin eru forvarnarsamtök gegn sjálfsvígum en samtökin veita þeim sem þjást af sjálfsvígshugsunum fría aðstoð. Einnig bjóða samtökin upp á aðstoð fyrir þá sem hafa misst ástvin eða hafa áhyggjur af ástvini. Hingað til hafa félagasamtökin aðeins boðið upp á þjónustu sína á höfuðborgarsvæðinu en frá og með deginum í dag verður breyting á þegar Píeta opnar útibú á Akureyri en Birgir Örn Steinarsson sálfræðingur hefur verið ráðinn forstöðumaður þar. 

Píeta er alltaf til staðar og Píeta síminn er opinn allan sólarhringinn, s: 552 2218.

Hér fyrir neðan má sjá viðtal sem sýnt var á N4 árið 2019 við Henný Lind Halldórsdóttur, sjálfboðaliða hjá Píeta samtökunum, þar sem hún ræðir um sína persónulegu reynslu, starfssemi Píeta samtakanna og drauminn um að opna útibú fyrir norðan – draum sem nú er orðinn að veruleika.

Forsíðumynd: Forsetafrúin Eliza Reid er verndari Píeta. Hún heimsótti Píeta, Aflið og Bjarmahlíð nýlega sem öll eru til húsa í Gamla spítalanum á Akureyri. Mynd: Facebooksíða Píeta.