
Pílufélag Siglufjarðar starfar í aðstöðu Brugghússins Seguls 67, þar sem regluleg spilakvöld og mót fara fram.
Stofnfundur nýs pílufélags á Siglufirði fór fram í gær þar sem lagður var grunnur að markvissu starfi í greininni á svæðinu. Á fundinum var félagið formlega stofnað og hlaut nafnið Pílufélag Siglufjarðar. Markmið félagsins er að efla pílustarf á Siglufirði og bjóða upp á aðstöðu jafnt fyrir nýliða sem lengra komna, auk sérstaks barna og unglingastarfs.
Í framhaldi af stofnun félagsins var kosin stjórn á fundinum. Í stjórn Pílufélags Siglufjarðar sitja:
- Ögmundur Atli Karvelsson, formaður
- Daan Boelsma
- Daníel F Ragnarsson
- Jóhann Már Sigurbjörnsson
- Kristín Jónsdóttir
- Hrafnhildur Ása Einarsdóttir, varamaður
Arna Rut Gunnlaugsdóttir sat stofnfundinn, veitti aðstoð, útskýrði reglur og svaraði fyrirspurnum fundargesta. Hún hefur verið kynnir á mótum á vegum Íslenska pílusambandið, situr í stjórn sambandsins og hefur komið að starfi nokkurra pílufélaga á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni.
Í tilkynningu sem birt var í Facebook hópi félagsins kemur fram að þrátt fyrir áskoranir vilji forsvarsmenn halda starfseminni gangandi og bjóða áhugasömum að gerast félagsmenn. Þar segir meðal annars að boðið verði upp á félagsaðild gegn 15.000 króna framlagi og hægt verði að semja um greiðslufyrirkomulag. Ákveðið var á fundinum að innheimta félagsgjöld og að lengra komnir iðkendur greiði einnig gjald til Íslenska pílusambandsins til að geta tekið þátt í mótum á þeirra vegum. Það gjald nemur 5.000 krónum á hvern félagsmann.
Tengt efni
Nýstofnaður píluklúbbur á Siglufirði, fyrsta jólamótið heppnaðist vel – Myndir
Fram kemur í tilkynningunni að tekjur félagsins verði nýttar til hagsbóta fyrir félagsmenn og til að efla starfið. Vonir standa til að þegar félagið verði orðið betur statt geti það aðstoðað félagsmenn með ferðakostnað og mótsgjöld eftir þörfum. Áfram verður rukkað fyrir spilakvöld, 1.000 krónur fyrir félagsmenn og 1.500 krónur fyrir aðra. Félagsmenn munu einnig njóta ýmissa fríðinda, þar á meðal afsláttar af mótum, afsláttarkóða hjá pingpong.is og forgangsskráningar á mót á vegum félagsins.
Ungt pílufólk fær sinn vettvang á Siglufirði
Sérstök áhersla verður lögð á barna og unglingastarf á næstunni. Samkvæmt tilkynningunni er stefnt að því að hefja slíkt starf á mánudögum og þriðjudögum þegar barinn er lokaður, þó nákvæmur tími liggi ekki enn fyrir. Börn í 6., 7. og 8. bekk munu æfa saman, sem og nemendur í 9. og 10. bekk og ungmenni undir 18 ára aldri. Fyrsti tíminn verður gjaldfrjáls en að jafnaði verður rukkað 1.000 krónur fyrir hvert skipti nema viðkomandi gerist félagsmaður. Boðið verður upp á lánspílur fyrir þátttakendur.
Nýtt tímabil hafið með móti 8. janúar
Til að hefja nýtt tímabil verður haldið mót fimmtudaginn 8. janúar næstkomandi. Skráning er hafin og eru 16 laus pláss í boði. Þeir sem voru á stigatöflu félagsins á síðasta tímabili hafa forgang í þeirri röð sem þeir voru skráðir, en að öðrum kosti er mótið opið öllum 18 ára og eldri. Þátttökugjald er 2.500 krónur fyrir félagsmenn og 3.000 krónur fyrir aðra, og að sögn skipuleggjenda verða ágæt verðlaun í boði.
Með stofnun Pílufélags Siglufjarðar er stigið mikilvægt skref í átt að öflugra og fjölbreyttara pílustarfi á svæðinu, þar sem áhersla er lögð á samfélag, uppbyggingu og aðgengi fyrir alla aldurshópa.
Myndir: María Elín Sigurbjörnsdóttir.



