Kæru íbúar Fjallabyggðar.
Undanfarna daga hafa ófærð, einangrun, snjóflóð, snjóflóðahætta og önnur veðurtengd óáran herjað á okkur íbúa Fjallabyggðar. Allt atriði sem ég sé að þið, íbúar Fjallabyggðar, eruð vön og takið af stóískri ró þess sem veit að við náttúruna verður lítið ráðið.
Á Siglufirði féll snjóflóð á skíðasvæðið í Skarðsdal og hús hafa verið rýmd við Norðurtún og Suðurgötu. Snjóflóðið í Skarðsdal virðist hafa eyðilagt skíðaskála og tengd hús, skemmt snjótroðara og valdið öðru tjóni sem eftir er að meta. Í því tilviki skiptir þó öllu að ekki varð slys á fólki né mannskaði. Nú er framundan að meta heildartjón og koma skíðasvæðinu aftur í gang enda er það ákaflega mikilvægt bæði fyrir okkur íbúana sem og atvinnulífið.
Í vikunni sem er að líða telst mér til að leiðirnar til og frá Fjallabyggð hafi verið meira lokaðar en opnar, ýmist vegna ófærðar eða snjóflóðahættu, nú eða bæði vegna ófærðar og snjóflóðahættu. Horfur eru á að sama ástand verði næstu daga. Öllum má vera ljóst að einangrun sem hlýst af langvarandi lokunum samgönguleiða er erfið og með öllu óásættanleg í nútímasamfélagi. Á undanförnum áratugum hefur þróun margra þátta samfélagsins verið með þeim hætti að góðar samgöngur hafa orðið sífellt mikilvægari. Nauðsynleg þjónusta hefur færst til stærri byggðarkjarna, vöruflutningar hafa flust upp á land, hraði samfélagsins aukist og vinnusóknarsvæði stækkað. Eina lausnin til framtíðar er að bora göng í gegn um þau fjöll sem um okkur lykjast.
Í mínum huga þá er mikilvægt að bora tvenn göng, annarsvegar til að tryggja samgöngur yfir á Eyjafjarðarsvæðið og hins vegar til að tryggja samgöngur yfir í Fljót og áfram suður. Fyrir hvorum göngum um sig eru gild rök og ljóst í mínum huga að bæði myndu þau styrkja byggð hér á svæðinu til langrar framtíðar.
Um langa tíð hafa íbúar og atvinnulíf í Fjallabyggð búið við samgöngur sem hafa, eftir því sem tímanum hefur liðið, orðið ófullnægjandi og standast ekki þær kröfur sem við, í ljósi samfélagslegrar þróunar undanfarinna áratuga, getum gert sanngjarna kröfu um.
Um leið og ég óska ykkur öllum góðrar helgar þá bið ég ykkur að fara varlega og fylgjast vel með þeim vefsíðum sem miðla okkur upplýsingum, hlekkir á þær eru hér að neðan.
Elías Pétursson, bæjarstjóri
Veðurstofa Íslands, Norðurland
Veðurstofan, spá um snjóflóðahættu
Vegagerðin, færð á Norðurlandi
Fjallabyggð, fréttir og tilkynningar