Elías Pétursson bæjarstjóri Fjallabyggðar hefur sent allnokkra pistla frá sér um gang mála og sendi hann eftirfarandi pistil frá sér í gær, föstudaginn 14. ágúst.

Nú þegar sumri er tekið að halla og sumarfríum er að ljúka er tilhlýðilegt að setja saman pistil og fara örlítið yfir stöðu dagsins.

Undanfarið hefur sannreynst að Covid sleppir ekki af okkur hendinni og mun ekki gera á komandi misserum og jafnvel árum. Svokölluð önnur bylgja hefur nú riðið yfir landið með þeim viðfangsefnum sem fylgja. Sem betur fer þá hefur veiran ekki náð til okkar hér í Fjallabyggð, fyrir það ber að þakka.

Við verkefnið Covid þarf að takast eins og önnur viðfangsefni sem á fjörur okkar og samfélagsins rekur. Fyrir okkur er best í því verkefni að nýta sanna, forna en um leið tímalausa speki sem orðast einhvern veginn þannig; svo skaltu vera við aðra sem þú vilt að þeir séu við þig. Í grunninn fellst í þessu að við, hvert og eitt, skulum vera góð hvert við annað, umburðarlynd og sýna hverju öðru þá framkomu sem við óskum að okkur sé sýnd. En í þessu fellst einnig að við, hvert og eitt, berum ábyrgð ekki bara á okkur sjálfum heldur einnig þeim sem með okkur eru í samfélaginu.

Megininntak sóttvarnareglna nútímans er að viðhalda skynsamlegri fjarlægð milli fólks, gæta að hreinlæti og láta taka sýni ef við erum með einhver þau einkenni sem vekja grun um Covid. Við þurfum líka að gæta að þegar þörf fyrir hnerra eða hósta kemur upp, sótthreinsa hendur, sem og allt það annað sem þríeykið hefur verið að segja. Allt það þurfum við öll að viðhalda og standa saman um. En við þurfum einnig að standa saman um að lifa lífinu og láta ekki tímabundinn pestarfjanda trufla okkur umfram það sem er nauðsynlegt.

Eitt af því sem halda þarf áfram er hið daglega líf…

Skólaárið í Leikskóla Fjallabyggðar er hafið, starfsfólk og nemendur mættu til starfa sl. mánudag en starfið fyrstu dagana ber þess merki að enn eru einhverjir starfsmenn og nemendur í sumarleyfi. Reynt verður að hafa starfið í leikskólanum með sem eðlilegustum hætti en fjöldatakmörk og nándarregla sóttvarnaryfirvalda gilda ekki um leikskólanemendur. Starfsfólk þarf að gæta að eins metra nándarreglu í starfi sínu. Það sama gildir um aðra fullorðna sem inn í leikskólann koma og af þeim sökum hefur verið ákveðið að skipta aðlögun sem skipulögð hafði verið í upphafi skólaársins á Siglufirði í tvo hópa en aðlögun í Ólafsfirði getur farið fram með áður boðuðum hætti. Leikskólinn gerir ráðstafanir um sótthreinsun og þrif og sem dæmi eru foreldrar beðnir um að taka allt dót barnanna heim daglega.

Skólasetning í Grunnskóla Fjallabyggðar verður 21. ágúst en skólastarf er hafið með námskeiðum fyrir starfsfólk. Í grunnskólanum á það sama við og í leikskólanum að skólastarf verður skipulegt með sem eðlilegustum hætti en starfsfólk gætir að eins metra nándarreglu við störf sín.

Í ljósi þess að sóttvarnaryfirvöld hertu ekki sóttvarnarráðstafanir eins og óttast var er opnunartími Íþróttamiðstöðva Fjallabyggðar í sundlaug og rækt nú samræmdur frá og með 15. ágúst. Vegna krafna um aukin þrif og sótthreinsun er íþróttamiðstöðin lokuð gestum daglega kl. 12:30 – 14:00. Þar eru fjöldatakmarkanir sem ætlað er að tryggja að gestir geti uppfyllt skilyrði um 2 metra nándarreglu. Mjög er mikilvægt að notendur gæti þess vel að hreinsa tæki og áhöld vel eftir notkun sem og að nándarreglan sé virt.

Í lokin vil ég nefna eitt mál er snýr að framkvæmdum sem er í gangi, þ.e. yfirlögn malbiks á Hvanneyrarbraut sem ég veit að sumir eru eðlilega orðnir svolítið langeygir eftir. Þannig er að Vegagerðin fræsti malbik í götunni fyrr í sumar samhliða öðrum fræsiverkefnum í bæjarfélaginu, ljóst var þá að vinna þyrfti ýmis verk er tengjast Hvanneyrarkróksverkefninu sem og annarri lagnavinnu. Sum þeirra verkefna hafa verið harðsóttari en vonir stóðu til og allt það ásamt öðrum verkefnum malbiksverktaka, hafa gert það að verkum að ekki er enn búið að yfirleggja götuna. Nú standa vonir til þess að malbikað verði á allra næstu vikum eftir að lokið hefur verið við fyrrnefnda vinnu sem og að endurnýja niðurföll í götunni.

Að síðustu óska ég öllum góðrar og gleðilegrar helgar.

Elías Pétursson
Bæjarstjóri.