Pizza með karamelliseruðum lauk og pipruðu beikoni

  • 8 þykkar beikonsneiðar, skornar í bita
  • 2 msk ósaltað smjör
  • 2 laukar, skornir í þunnar sneiðar
  • ¼ tsk salt
  • 1 msk púðursykur
  • 2 hvítlauksrif, fínhökkuð
  • 1 tsk ferskmalaður pipar
  • 350 g óðalsostur, rifinn (ég mæli sérstaklega með honum, hann passar svo vel á pizzuna)

Hitið pönnu yfir miðlungsháum hita og steikið beikonið svo að fitan byrjar að renna af því og beikonið er aðeins byrjað að steikjast. Það á eftir að klára steikinguna í ofninum. Færið beikonið af pönnunni yfir á disk þaktan eldhúspappír og myljið pipar yfir. Látið fituna vera áfram á pönnunni, lækkið hitan í lágann hita og bætið smjöri saman við. Þegar smjörið er bráðnað er laukurinn settur á pönnuna ásamt salti. Setjið lok yfir og eldið við vægan hita í klukkustund, en hrærið í lauknum á 10 mínútuna fresti. Eftir klukkustund er púðursykri bætt á pönnuna og látið krauma áfram undir loki í 15 mínútur. Hrærið hvítlauk saman við og takið af hitanum. Færið laukinn yfir í skál og leggið til hliðar.

Fletjið pizzubotnana út og stráið helmingnum af ostinum yfir þá. Setjið laukinn yfir ostinn og þar á eftir beikonið. Endið á að setja ost yfir og bakið við 180° í 30-35 mínútur, eða þar til botninn er gylltur og osturinn bráðnaður og kominn með fallegan lit.

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit