Einn þeirra áfanga sem nemendur á starfsbraut MTR sitja þessa önnina er Inngangur að náttúruvísindum.
Í áfanganum er farið yfir grunnatriðin í þeim námsgreinum sem tengjast þeim vísindum.
Í skólanum er einnig unnið markvisst með Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Á dögunum tvinnuðu nemendur starfsbrautar þessa tvo þætti saman þegar þeir brugðu sér út í góða veðrið og könnuðu plöntuflóruna í kringum skólann. Nemendur tóku sýnishorn af þeim tegundum sem þeir sáu og síðan var farið í vinnu við að greina þær; alls reyndust þær 25 talsins.
Sumar þekktu nemendur með nafni en aðrar voru greindar með hjálp Íslensku plöntuhandbókarinnar. Þessi vinna tengdist m.a. beint 15. Heimsmarkmiðinu sem kallast Líf á landi. Þar er m.a. lögð áhersla á að sporna við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og að draga úr áhrifum aðfluttra ágengra tegunda. Voru nemendur sérlega áhugasamir við þessa vinnu og fannst merkilegt hversu margar tegundir fundust í næsta nágrenni skólans.
Forsíðumynd: SÁ