Það er verulega gaman þegar einhver nördinn hefur fyrir því að safna saman tónlist sem heyrist lítið eða ekkert nú orðið og gerir hana aðgengilega eins og þessi aðili hefur gert á síðunni „Hermigerfill´s Record Corner“, en þar má finna ýmsa gamla kunningja sem hafa verið mismikið gleymdir um áratuga skeið.
Slóðin á þessa skemmtilegu síðu er: https://www.youtube.com/watch?v=xsQ56MGIb48
Það kom mér skemmtilega á óvart þegar ég rakst þar á meðfylgjandi efni, en þar var á ferðinni B-hliðar lagið á smáskífunni „Eftir Ballið“ sem var nefnd eftir samnefndu lagi sem kom út með Miðaldamönnum árið 1981. Lagið „Eftir ballið“ rataði inn í Söngvakeppni Sjónvarpsins þetta árið, en þá var hún haldin í fyrsta skipti, þó ekki stæði til að senda vinningslagið „Af litlum neista“ í stóru Eurovisionkeppnina sem haldin var þetta árið í Dublin þar sem Johnny Logan hafði unnið keppnina árið áður með laginu „What´s another year“.
Þar sem góð kynning hafði fengist á lagið okkar Hafliða Guðmunds „Eftir ballið“ vantaði snarlega eitthvert lag á B-hliðina þar sem ráðgert var að halda til Akureyrar allra næstu daga og taka herlegheitin upp. Ég fékk það hlutverk að smíða saman tóna og texta þannig að úr yrði eitthvað nothæft og minnir mig að ég hafi fengið tvo eða þrjá daga til þess.
Þegar við mættum síðan til Akureyrar var Pálmi stórvinur okkar Guðmundsson búinn að undirbúa komu okkar vel og rækilega því hann hafði safnað saman góðum liðsauka og það má alveg segja að það hafi bjargað okkur fyrir horn þegar að upptökunum kom. Í Stúdíó Bimbó var nefnilega mætt einvalalið úr Akureyrskum hljómsveitum, þ.e. Viðar Eðvarðsson saxófónleikari, Leó Torfason gítarleikari og stórsöngkonan Erla Stefánsdóttir, en það er líklega ekki ofsagt að þau hafi gert gæfumuninn í plötugerðinni. síðast en ekki síst verður að nefna Snorra Guðvarðsson sem söng aðalröddina í laginu sem um ræðir, en því má svo bæta við að hann á ættir að rekja til Siglufjarðar. Faðir hans var Guðvarður (Varði málari) sem bjó að Túngötu 10 fram yfir 1960. Síðar þetta sumar komu þau svo öll (nema Snorri) til Siglufjarðar og það var haldinn sannkallaður stórdansleikur á troðfullri Hótel Höfn þar sem sex manna hljómsveit stóð á sviði við frábærar undirtektir dansgesta. Reyndar slógust líka fáeinir fylgjendur þeirra Akureyringa með í för og má þar nefna Guðmund trommuleikara sem leysti af við settið í nokkrum lögum. Þetta var á föstudegi, en frá Sigló var haldið í Ljósvetningabúð daginn eftir. Við komumst þá að því að söngkonan hafði búið um tíma í þeirri sveit og ekki varð gleðin minni á þeim bæ þar sem fyrrverandi sveitungar hennar pakkfylltu húsið. Erla lést á líknardeild Landsspítalans í Kópavogi 12. nóvember 2012 og er mikil eftirsjá af þeirri hæfileikaríku söngkonu sem yfirgaf þessa jarðvist allt of snemma.
Á þessum tíma var hljómsveitin Miðaldamenn aðeins tríó, þ.e. sá sem þetta skrifar Leó Ólason á Farfisa hljómborð og monofónískan synthesizer, Sturlaugur Kristjánsson á bassa og Birgir Ingimarsson á trommur. Það fannst sumum skrýtið að enginn gítarleikari var í bandinu, en eftir á að hyggja var alveg með ólíkindum hvað hlutirnir gengu upp þannig.