Á 695. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar var lagt fram vinnuskjal deildarstjóra fræðslu-, frístunda- og menningarmála og markaðs- og menningarfulltrúa, í framhaldi af bókun 200. fundar bæjarstjórnar Fjallabyggðar og samþykktar 692. fundar bæjarráðs þar sem óskað var eftir umsögn deildarstjóra og markaðs- og menningarfulltrúa um möguleika þess að halda hátíðina Trilludaga, til dæmis síðar í sumar.
Í vinnuskjali kemur fram að fundað hafi verið með hlutaðeigandi aðilum hátíðarinnar, fulltrúum Kiwanis á Siglufirði og trillusjómanna.
Trilludagar er fjölskylduhátíð sem hefur vaxið gríðarlega milli ára. Hátíðin var haldin á Siglufirði, í fjórða sinn, þann 27. júlí 2019 og er talið að um 2.500 – 3.500 manns hafi lagt leið sína niður á höfn og notið þess sem í boði var.
Er það samdóma álit aðila að ekki sé forsvaranlegt að halda Trilludaga þann 24. júlí nk. nema öllum samkomutakmörkunum hafi verið aflétt og 1-2 metra reglu hafi verið sleppt. Það er álit aðila að ekki sé forsvaranlegt að hefja undirbúning að svo stórri hátíð sem svo verði jafnvel á endanum aflýst.
Í vinnuskjali er óskað eftir heimild til þess að nýta hluta af áætluðu fjármagni í hátíðina til að undirbúa veglega hátíð sumarið 2022 með kaupum á fleiri björgunarvestum og veiðistöngum og áætlun gerð um að fjölga trillum.
Einnig er lagt til að tækifæri verði gripin í sumar til að setja á „popp up“ viðburði fyrir íbúa Fjallabyggðar og gesti þegar vel viðrar og sóttvarnir leyfa s.s með lifandi tónlist, bryggjuballi og fleiru.
Bæjarráð samþykkir að aflýsa Trilludögum þetta árið og að fjármunum sem ætlað var í hátíðina verði varið að hluta til undirbúnings Trilludaga árið 2022 og að tækifæri verði nýtt til að setja á „popp up“ viðburði eins og lagt er til í vinnuskjali.
Mynd: Vilmundur Ægir Eðvarðsson