Hljómsveitin FRUM.

Hér birtist fimmti hluti framhaldssögunnar næstum því endalausu, um unglingahljómsveitirnar á Siglufirði sem þar störfuðu og lifðu mislengi fyrir hálfri öld eða svo. Mesta púðrið í þessum og næsta pistli fer í frásagnir af hljómsveitinni Frum sem varð heldur lífseigari en spár gerðu ráð fyrir í upphafinu og því sem síðan tók við í beinu framhaldi af þeirri útgerð. Hún var þó alls ekkert endilega betri eða verri en mörg önnur bönd sem fá mun minni umfjöllun, heldur er ástæðan sú að sá sem þetta skrifar var innvígður og innmúraður í bandið nánast frá upphafi til loka, og hefur einfaldlega frá meiru að segja en því magni fróðleiks um sambærilegt efni sem safnast hefur frá öðrum. Vona að lesendur virði þetta við mig.

Lindargata 5 eða Glaumbær eins og húsið var stundum kallað löngu áður en það varð æfingarhúsnæði fyrir okkur guttana í Frum.
Dag einn þegar ég átti leið um Lindargötuna sá ég Braga Magg horfa á húsið með athygli og sýndist mér hann ansi glottuleitur. Við tókum tal saman og hann spurði hver væri hugmyndafræðingurinn að þessum utanhússskreytingunum. Ég sagði honum það og hann benti þá á áletrunina RAT SALAT og hló við. Í framhaldinu hefur hann teiknað þessa sögulegu mynd

Glaumbær.
Um líkt leyti og gömludansabandið Miðaldamenn var stofnað af þeim Magnúsi Guðbrands, Þórði Kristins og Bjarka Árna, (Sturlaugur bættist þó fljótlega við), varð unglingahljómsveitin Frum til eða um haustið 1971. Í byrjun var æfingaraðstaðan í veiðarfærageymslu Svenna Björns pabba Guðna Sveins og Hafþórs Rósmundar. Þar komu upphaflega að málum þeir Guðni Sveins, Biggi Inga, Viðar Jóhanns og Gummi Ingólfs. Þannig skipuð spilaði hún á einu unglingaballi í Allanum, en fljótlega höfðu þeir félagar samband við undirritaðan og buðu mér að slást í hópinn. Ég þáði það með þökkum, ekki endilega vegna þess að ég tryði að framtíð og frama sveitarinnar sem þó lifði lengur og gerði meira en flestir bjuggust við í fyrstu, heldur ekki síst vegna félagslega þáttarins. Það var nefnilega ekkert sérlega spennandi að hanga bara heima með græjurnar sínar og geta ekki „blastað“ á einhverja áheyrendur plús það að deila sínu helsta áhugamáli með félögum sínum. Veiðarfærageymslan var í norðurendanum á annarri hæð hússins þar sem nú er veitingastaðurinn Rauðka. En fljótlega var flutt í annað húsnæði og þá auðvitað miklu meira spennandi að tilheyra hópi unglinga sem hafði aðgang að “Glaumbæ”, þ.e. æfingahúsnæðinu sem varð með tímanum eins og félagsmiðstöð okkar í bandinu ásamt sérvöldum gestum okkar, heldur en þeim sem gerðu það ekki.

Þarna var hangið flest kvöld hvort sem voru haldnar hljómsveitaræfingar eða ekki, og ekki var óalgengt að inni væri mikill glaumur og gleði langt fram eftir kvöldum virka daga sem helga. Það kom jafnvel fyrir að það var örlítið sýslað með göróttar veigar ef vel stóð á og ljósin deyfð, þó svo að grúppíurnar sem vöndu komur sínar á staðinn væru auðvitað bara vel upp aldar, gáfaðar og skemmtilegar stelpur. Og svo máttum við strákarnir líka bara þakka fyrir að þær vildu umgangast okkur því ekki vorum við allir einhverjir eðaltöffarar (nema auðvitað Guðni Sveins).

Það var kaupmaðurinn Gestur Fanndal sem átti húsið og lánaði okkur það til afnota þar til það yrði rifið sem stóð til að gera innan tíðar. Sennilega hefur hann haft einhvern pata af því að þarna væru nú ekki haldnir neinir skátafundir og mætti því eitt laugardagskvöldið í nokkurs konar eftirlitsferð. Við vorum einmitt nýbyrjaðir að væta kverkarnar lítillega, en til allrar hamingju var læst svo við urðum gestsins varir í tíma og það rann snarlega af okkur þegar við áttuðum okkur á hver var þar á ferð. Gestirnir földu sig uppi á lofti og hafa eflaust ekki þorað að anda og við opnuðum fyrir húseigandanum sem gekk rakleiðis á mitt gólf og hnusaði út í loftið.

“Hvaða lykt er þetta?”

Stemningin virtist afslöppuð á yfirborðinu þó við værum allir verulega stressaðir undir niðri, en Guðni var fljótur til og var þegar farinn að nudda gítarhálsinn með einhverjum klút.

“Strengjavatn” svaraði hann að bragði og bætti því við að efnið fáist í apótekinu og sé notað til að hreinsa gítarstrengina.

Við hinir vorum eins og festir upp á þráð, lögðum ekkert til málanna og biðum eins og dæmdir sakamenn eftir því sem verða vildi. Gestur horfði rannsakandi í kring um sig í herberginu þar sem englar, djöflar og alls konar furðuverur flögruðu um veggi og loft. Þá voru líka skráðar upp um allt og út um allt, ýmis konar frasar og áletranir af misjafnlega gáfulegu og smekklegu tagi. Það var auðvitað skreytingameistarinn Birgir Ingimarsson sem hafði staðið fyrir því og utan á suðurvegg hússins var öllum þeim sem komu gangandi norður Lindargötuna boðið upp á rottusalat og víst er að ekki voru allir í hverfinu sáttir við skreytingarlistina og hávaðasamt atferlið sem fylgdi okkur “Glaumbæingum.”

Gestur hvarf þó fljótlega á braut eftir að hafa gert minni háttar athugasemdir við eina áletrunina innan dyra, en við þóttumst hafa sloppið vel fyrir horn í þetta skiptið. Þegar hann var farinn komu stelpurnar úr felustað sínum og voru mjög órólegar vegna þessarar óvæntu uppákomu svo að öll hersingin hélt áleiðis niður á Rauðkubryggju til að taka nokkrar sveiflur í kaðlinum. Þegar við nálguðumst svæðið fóru einhverjir að greikka sporið því það gat aðeins einn sveiflað sér í einu og hver vildi ekki verða fyrstur? Þegar við komum niður eftir var enginn á bryggjunni en kaðallinn hékk letilega þráðbeint niður og það var engu líkara en að hann væri að hvíla sig fyrir þau átök sem í vændum voru. Þeir sem komu fyrstir fram á bryggjusporðinn horfðu vandræðalega á kaðalinn því bilið var á þriðja metra að honum frá bryggjubrúninni. Það þurfti því helst að reyna að krækja í hann með einhverju móti en ekkert var þarna sem nothæft gat talist til slíkra hluta. Það er því ekki fyrr en rótarinn okkar hann Óskar Elefsen kemur aðvífandi að eitthvað fer að gerast, því hann stikaði fram Rauðkubryggjuna svalur og ákveðinn, dró annað augað í pung og læsti miði á kaðalinn. Án þess að hika stökk hann fram af bryggjunni og hugðist fanga hið eftirsótta leikfang okkar og verða þá í leiðinni fyrstur til að nýta sér það. En vegna ástandsins sem var ríkjandi í höfðinu á rótaranum, þá hefur hann ef til vill séð fleiri ein einn kaðal því hann rétt snerti hann og sökk á bólakaf í sjóinn við mikil fagnaðarlæti okkar hinna sem fylgdust spennt með atburðarrásinni. Snerting hans við kaðalinn gerði það hins vegar að verkum að hann hreyfðist eins og skott á ketti þegar eigandi þess verður fyrir áreiti. Það dugði til þess að einhver á bryggjunni náði kaðlinum og skemmtunin gat hafist. Allt hinum nú hundblauta Óskari að þakka. Af honum var það hins vegar að segja að hann svamlaði til lands og tók síðan stefnuna beinustu leið heim en var mættur aftur innan hálftíma til að taka þátt í áframhaldandi gleði, og í annað sinn uppskar hann þá fögnuð viðstaddra það kvöldið.

Fyrsta alvöruballið.
Hinni kennari gerði góðlátlegt grín að okkur Guðna, en við vorum þá í fjórða bekk í Gaggó og ætluðum að halda alvöru 16 ára ball uppi á Krók. Honum fannst við ef til vill vera full blautir á bak við eyrun til þess að takast á við slíkt alvörumál enn sem komið var, og líklega hefur hann nú haft eitthvað til síns máls. Umræðan fór fram í enskutíma á föstudeginum sem við áttum Bifröstina pantaða á okkar reikning og ábyrgð. Við vorum auðvitað ekkert nema stál heppnir, því húsið fylltist af fólki og við spiluðum öll lögin sem við kunnum fjórum eða fimm sinnum það kvöldið. Síðan gerðum við upp og fórum svo heim og sváfum allan sunnudaginn. Á mánudegi vildi Hinni halda síðan gríninu áfram og spurði glottuleitur hvort einhver hefði komið á ballið, en við kváðum svo hafa verið. Hann spurði þá hvort við hefðum fengið eitthvað greitt fyrir verkið og brosti flírulega. Við sögðum honum þá að svona lagað væri unnið upp á hlut og nefndum töluna sem kom í okkar part og þá hætti Hinni alveg að brosa en spurði hneykslaður hvort okkur þætti það í alvörunni sanngjarnt að við gutlararnir sem værum algjörir byrjendur á okkar sviði fengjum sömu laun fyrir eina kvöldstund og hann fengi fyrir næstum því heilan mánuð í fullu starfi sem kennari. Við áttum svo sem engin svör við því, en vorum auðvitað hinir borubröttustu. Það lak út úr mér í framhaldinu að svona virkaði nú kapítalisminn stundum, en Hinni kunni síður en svo að meta slíkt svar og auðvitað hefði ég nú betur haldið kjafti þá sem oftar.

Auglýsingin hjá Matta sem særði blygðunarkennd einhverra bæjarbúa. Ljósmyndina tók Steingrímur Kristinsson

Auglýsingin í sjoppunni hjá Matta.
Sumarið 1972 vorum við að spila flestar helgar þó svo að eftirtekjan væri ekki alltaf í samræmi við fyrirhöfnina. Einhverju sinni eftir æfingu stóðum við inni í Pósthússkotinu, röbbuðum saman og horfðum á sveitunga okkar sækja Moggann sinn í sjoppuna til Matta.

“Af hverju setjum við ekki ballauglýsingar þarna?” Biggi trommari og auglýsingagúrú spurði bæði sjálfan sig og okkur, en við sem minna vissum um auglýsingar og markaðssetningu áttum svo sem engin svör. Við vorum bókaðir á Ketilásnum næstu helgi og nú var komin miðvikudagur og tímabært að láta vita af því hvað yrði í boði um helgina. Biggi rölti yfir Grundargötuna og við horfðum á eftir honum fara inn til Matta og sáum að þeir tóku tal saman. Eftir svolitla stund kom hann til baka og sagði okkur að Matti væri alveg til í að hengja upp auglýsingu frá okkur um Ketilásballið.

“Ég sagði bara hverra manna ég væri og þá var þetta allt í lagi”, því Ingi Bald var auðvitað réttu megin í pólitíkinni að mati Matta. Við gerðumst síðan aðstoðarmenn Bigga þegar hann gerði auglýsinguna. “Þetta verður alls staðar bannað” sagði ég þegar útlínurnar myndarinnar tóku að skýrast á blaðinu. “Sjáum til” sagði hann og kláraði myndina og textann á ótrúlega stuttum tíma. Síðan var beðið eftir að einhver leysti Matta af, en þá var farið inn með auglýsinguna inn, hún hengd upp og mótmæli afleysingamannsins kæfð í fæðingu.

“Matti var búinn að lofa okkur þessu og sagði að þetta væri í góðu lagi.” Auglýsingin var gerð á breiðan umbúðapappír og var á annan metra á hæðina. Það dimmdi inni í sjoppunni þegar hún var komin á sinn stað, en af einhverjum ástæðum lét Matti þetta yfir sig ganga. Hann vissi svo sem að menn áttu að standa við loforð sín en fannst kannski að hann hefði verið plataður svona pínulítið.

Það var svo Jóhannes lögga en ekki Matti sem bað okkur að taka auglýsinguna niður því það hefðu einhverjar kvartanir borist frá bæjarbúum. Hann taldi að sá möguleiki væri fyrir hendi að hún væri vitlausu megin við hina hárfínu en ósýnilegu siðferðislínu sem almennt var talin eiga að skilja á milli smekks og smekkleysu. Biggi varð við mjög svo kurteislegri beiðni yfirvaldsins og tók auglýsinguna niður en hún hafði þá þegar vakið talsverða athygli og umtal í bænum. Það voru hvort sem er allir búnir að sjá hana og nú gat sólin aftur farið að skína inn í sjoppuna hjá Matta.

Hljómsveitarbíll, “nýr” bassaleikari og Sjallaútgerð.
Við höfðum stundum átt í svolitlum vandræðum með að fá bíl til að aka okkur sem rúmaði bæði hljómsveitina og allt hennar hafurtask. Stundum hafði mestöll innkoma helgarinnar farið í að borga ferðakostnað en nú skyldi verða breyting á.

Hljómsveitarbíllinn sem keyptur var af Ingimar Láka eftir svolítið misheppnaða tilraun til að mála hann svolítið fjörlegri litum

Guðni Sveins sem var fæddur í janúar var kominn með bílpróf semma árs 1972, en ég sem átti ekki afmæli fyrr en í nóvember varð að bíða fram á næsta vor þegar aftur var von á bifreiðaeftirlitsmönnunum frá Akureyri sem voru í þá daga bæði skoðunarmenn og prófdómarar. Bílpróf voru nefnilega ekki tekin á Siglufirði nema yfir blásumarið í þá daga. Ég tók út fermingarpeningana mína og með svolítilli viðbótaraðstoð frá afa og ömmu gat ég keypt Volkswagen rúgbrauðið af Inga Láka bakara. Ökutækið sem til þessa hafði aðallega flutt brauð og kökur skildi nú fá nýtt hlutverk og flytja hljómsveit og hljóðfæri. Sumarið 1972 fórum við að sækja lengra en áður hafði þekkst og við sömdum við Ragnheiði sem rak Allann á Akureyri um að við spiluðum þar aðra hverja helgi, en þá um sumarið var þetta eini staðurinn sem gerði út á sextán ára böll í þeim ágæta bæ. Akureyrarævintýrið gekk betur en við höfðum þorað að vona og um haustið vissu flestir krakkar í innanverðum Eyjafirði hverjir við vorum því við höfðum gert ágæt böll í Allanum um sumarið.

Teisco fiðlubassi svipaður þeim sem ég keypti í Aðalbúðinni forðum daga

Þó svo að samkomulagið í bandinu hafi yfirleitt verið með ágætum, þá kom stundum upp smávægilegur ágreiningur milli manna eins og gengur. Einhverju sinni á slíkri stund hætti Viddi og fór með allt sitt dót af svæðinu. Við gerðum í fyrstu ráð fyrir því að þetta væri mjög tímabundið ástand því við áttum að spila eftir tvær vikur sléttar, en menn náðu því miður ekki saman. Ég stakk þá upp á því að ég keypti flotta Teisco fiðlubassann sem var búinn að vera lengi til sölu í Aðalbúðinni og tæki við af Vidda sem bassaleikari. Ég væri hvort sem er búinn að spila með þvílíkum látum og stundum verið ansi þunghentur á vesalings Yamaha orgelið mitt, að flestar nóturnar væru nú brotnar og það væri svo gott sem ónothæft. Þetta var samþykkt með semingi en ég sagðist þá kaupa nýtt orgel ef Viddi vildi koma aftur sem gerðist reyndar ekki. Ég keypti því næst fiðlubassann, fór með hann heim og æfði mig frá morgni til kvölds og var búinn að eiga hann í réttar tvær vikur þegar ég spilaði á fyrsta ballinu sem bassaleikari. Einhverjum árum síðar seldi ég Stebba Fidda þennan fallega bassagítar og sá hann ekki aftur fyrr en árið 2006 og þá í höndunum á nýjum manni. Það var Stebbi Gauti sonur Stebba Fidda sem stóð þá uppi á pallinum við torgið á Síldarævintýrinu og spilaði á Teisco fiðlubassann sem ég hafði keypt í Aðalbúðinni 33 árum áður.

Það var líklega Biggi Inga sem var aðal hvatamaðurinn að því að við tækjum Sjallann á leigu um veturinn. Þar gátum við æft, haldið partý og látið öllum illum látum, slegið upp böllum og jafnvel leigt salinn út þess á milli. Svona eftir á að hyggja var þetta ekki endilega skynsamlegt fjárhagslega séð, en tíminn sem fór í hönd var skemmtilegur og nokkurs konar framhald á Glaumbæjargjálífinu.

Sjallinn var á margan hátt frábær aðstaða og heilmikið ævintýri fyrir unga menn eins og okkur að taksat á við nýjar áskoranir. Við spiluðum meira en við höfðum áður gert, fórum út úr bænum eins oft og við gátum en fylltum upp í eyðurnar með því að spila í Sjallanum. Stundum gekk það vel en stundum urðu líka afgerandi messuföll.

Ég man að einu sinni kom ég óvenju vandræðalegur inn á bæjarfógetakontórinn til að gera upp söluskattinn eftir dansleik helgarinnar. Það hafði verið seldur nákvæmlega einn miði og Braga Magg sem þá var gjaldkeri hjá fógeta fannst þetta miklu fyndnara en mér.

Sjarmörinn sem heillaði stelpurnar með laginu vinsæla, þá sennilega aðeins 22 ára gamall.
Ljósmyndina tók Róbert Guðfinnsson

Oh, mamy blue.

Lagið sem varð svo ofurvinsælt að fáheyrt hefur verið allar götur síðan það var og hét strax frá því að það heyrðist fyrst í “Lögum unga fólksins” á þriðjudagskvöldið góða, en áður en vikan var öll var lagið á hvers manns vörum og sinni. Eins og var gjarnan siður þeirra sem gerðu út á poppmarkaðinn, var setið yfir umræddum útvarpsþætti með kassettutæki ef þar kæmi eitthvað nýtilegt fram og vísifingur og langa töng hægri handar voru þá tilbúnar á rec og play takkanum. Þannig gerðist það einmitt að ofursmellurinn “Oh mamy blue” rataði inn á bandið, en það var þá flutt af bresku hljómsveitinni Pop Tops en fljótlega gefið út af SG-hljómplötum með Mjöll Hólm. Það var auðvitað æft í einum hvínandi hvelli, því leiðin lá þá einmitt í Allann á Akureyri helgina eftir. En því sem gerðist þegar við spiluðum lagið verður vart með orðum lýst. Salurinn hreinlega ærðist og þó einkum og sér í lagi yngri hluti kvenþjóðarinnar. Því verður ekki neitað að lagið féll afar vel að raddöndum söngvarans Guðmundar Ingólfssonar sem þá var rétt kominn yfir tvítugt. Við urðum svo auðvitað að endurtaka það sex, átta eða tíu sinnum um kvöldið og ég er ekki frá því að einhverjar ungmeyjar hafi fellt ofurlítið aðdáunartár við brún hljómsveitarpallsins og fótskör meistarans. Eftir að ballið var búið hófst þessi venjubundna rútína sem flestir popparar þekkja svo vel, það var farið að aftengja hljóðfærin, pakka niður og gera okkur klára til heimferðar. Að þessu sinni vorum við þó einum færri en vanalega, því eftir að við vorum búnir að pakka, gera upp og koma hljóðfærunum út í bíl, var söngstjarnan enn að gefa ungum táningsstúlkum eiginhandaráritanir.

Þennan dag öfundaði ég Gumma Ingólfs af kvenhylli sinni.

Hér má finna áður útkomnar greinar eftir Leó Ólason.