M´bebe og Plunge
Ég hafði samband við Gottskálk Hávarð Kristjánsson sem var einn meðlima í báðum hljómsveitunum, en fyrir þá sem eru ekki að átta sig á hver maðurinn er, þá er hann sonur Kristjáns Elíassonar og Lilju Eiðsdóttur. Frásögnina sem fer hér á eftir sendi hann mér og birtist hún hérna lítið breytt.
“Við Dóri (Steindór Örvar Guðmundsson) vorum alltaf eitthvað að vesenast með gítarana okkar og einn daginn vorum við sammála um að það væri líklega alveg hrikalega kúl að vera í hljómsveit. Við fengum Jónas Birgisson með okkur á bassann, Agga (Agnar Þór Sveinsson) á trommurnar, og byrjuðum að spila saman. (minnir 1992). En okkur fannst bandið vanta söngvara og gekk Anna Rós (Ívarsdóttir) því í bandið og úr varð hljómsveitin M´BEBE. Þrátt fyrir mikil heilabrot fundum ekkert nafn á bandið sem okkur líkaði, svo ég spurði pabba hvort hann væri með hugmynd. Hann kom strax með þessa skrýtnu hugmynd sem var M´bebe, en það þarf að segja það með nettum Uganda hreim svo það virki eins og ætlast er til. Nafnið er náttúrulega algjört bull og okkur fannst það bara mjög fyndið og voila.
Við spiluðum á nokkrum böllum og á Síldarævintýrunum 94 , 95 og 96. Æfingahúsnæði sveitarinnar var í versluninni Tröð á efri hæð og stundum einnig á neðri hæðinni, en við fengum að vera þarna frítt í boði bæjarins með rafmagn en þó ekkert rennandi vatn.
Einn veturinn þegar M´bebe var ekki starfandi var ég beðinn að grípa í mækinn hjá þungarokksbandinu Blackmail (líklega 1993-4) með þeim Víði Venna, Jónsa Sveins, Sigþóri Ægi Frímanns og Ása Tona. Ég var heldur betur til í það og við hentum í nokkur vel valin Metallica lög og æfðum einnig í Tröð. Við meira að segja renndum til Akureyrar í studíó hjá Kristjáni Edelstein og hentum í einn þungan slagara. Lagið sem heitir Among Angels, kom út á Sándkurl II. Í þessu lagi vildi ég endilega reyna að hljóma eins og Eddie Vedder, en mér fannst það koma hræðilega út. hehehe.
Ég, Víðir, Svenni og Jónsi fengum þá hugmynd að halda unplugged tónleika í Bíóinu (1994 minnir mig) og settum saman hljómsveit fyrir það. Ekkert varð þó af þessum tónleikum, því strax á fyrstu eða annarri æfingunni vorum við farnir að semja eigin tónlist og misstum allan áhuga á að spila lög eftir aðra. Við renndum þá aftur til Kristjáns Edelstein á Akureyri og tókum upp lagið Love me Suicide undir nafninu Newshit, en lagið kom síðan út á diski sem hét Lagasafnið 5. Þarna var ég ennþá að reyna að herma eftir Eddie Vedder, en eftir þetta lag vissi ég þó hvað hentaði mér betur.
Haustið 95 fór ég svo í skóla í Noregi en strákarnir héldu áfram að semja og sendu mér nokkra grunna sem ég samdi melódíu við og svo gerði ég nokkur lög sjálfur. Þegar ég kom heim í jólafrí renndum við enn og aftur til Kristjáns á Akureyri og tókum upp að mig minnir tíu lög í demó gæðum þar sem allt var meira og minna spilað inn LIVE. Svo flaug ég aftur út til Noregs og við héldum áfram að semja í sitthvoru lagi. Um sumarið ´96 fengum við aðstöðu í Suðurgötu 10 niðri í salnum, breyttum nafninu á bandinu í PLUNGE og æfðum við þar og sömdum á hverju einasta kvöldi og allar helgar. Æfingarnar á laugardögum og sunnudögum fóru líklega stundum upp í 10-12 tíma, svo mikill var áhuginn. Seinna um sumarið renndum aftur til Akureyrar og tókum upp sennilega 10 lög sem við vorum nokkuð sáttir með. Svo héldum við bara áfram að æfa og semja. Um haustið sáum við auglýsingu í einhverju gítarblaðinu sem Víðir átti þar sem var verið að auglýsa eftir efni á Promo disk sem átti að dreifast á útvarsstöðvar í USA. Við skrifuðum út til Kaliforníu og sendum 3 demo til Rodell Records og fengum svar til baka þar sem við vorum beðnir um að senda mediakit og einnig pening fyrir 20 eða 30 eintökum með okkar eigin kópíum af geisladisknum Sounds from the Underground 1997 sem innihélt þá lagið Attraction. Við urðum náttúrulega yfirspenntir en áttum eiginlega engan pening til að senda út, en vorum svo sponsoraðir af Neta og Veiðrafæragerðinni. Svo kom diskurinn og við fögnuðum vel og réðum mömmu sem umboðsmanninn okkar. Hún fór í yfirgír og kom okkur í viðtöl á Aðalstöðinni og Bylgjunni prime time þar sem við sögðum þessa sögu og einnig komu viðtöl í Mogganum og Dagblaðinu Vísi um þetta allt saman og að sjálfsögðu fylgdu tónleikar á Gauk á Stöng í kjölfarið.
Við vorum bara nokkuð hamingjusamir með þetta allt saman og héldum auðvitað áfram að semja. Hinsvegar þurfti maður líka að vinna og ég fór því á sjó og svo seinna um sumarið fluttumst við Svenni suður í sitt hvoru lagi. Víðir hélt áfram að semja og ég einnig um borð á togaranum Sigli. Um sumarið ´97 var komið að því að fara til Kristjáns á Akureyri eina ferðina enn, Víðir og Jónsi komu frá Sigló og við Svenni vorum grand á því og tókum flugið frá Reykjavík og tókum upp örugglega 10 lög til viðbótar. Við vorum býsna ánægðir með lagasmíðarnar, en þó ekki hljóðblöndunina hjá Kristjáni. Á meðan á þessu öllu stóð, héldum við nokkra tónleika á Sigló og einnig eitthvað í Reykjavík, en mest vorum við þó að semja og taka upp. Við eigum líklega um 30 lög frá þessu tímabili í demo útgáfum.
Eftir þetta leystist bandið upp hægt og rólega. Við komum þó nokkrum sinnum saman aftur og þá með bræður okkar Víðis þá Eisa og Fannar undir nafninu „Snilldin Ein“ og héldum cover tónleika í bíóinu að mig minnir 2007 og 2008.
Við Víðir trúbbuðumst svo eitthvað á Hressó í Reykjavík þar til hann flutti til Akureyrar 2006 og þá byrjuðum við Eisi bróðir að spila saman og trúbbuðuðumst yfir okkur í Reykjavík. Það var aðallega á Hressó, en einnig á Sólon og kannski einu sinni eða tvisvar á Sigló.
Síðan hefur maður bara verið að semja heima í rólegheitum sjálfum sér til ánægju og síðasta sumar setti ég tvö lög á allar helstu streymisveitur eins og Spotify, iTunes og Tidal og auðvitað einnig Youtube”. Hægt er að líta inn á æfingu hjá Gotta og Eisa ef fylgt er slóðinni https://www.youtube.com/watch?v=NlQApu7Qce8
Gautar gefa út geisladisk.
Á Þorláksmessudag í desembermánuði árið 1995 fjallar Morgunblaðið um nýútkominn geisladisk hljómsveitarinnar Gauta frá Siglufirði sem bar nafnið ‚Í Vetrarbrautinni“. Þar segir að flest lögin séu eftir Elías Þorvaldsson sem einnig útsetur og stjórnar upptökum, en flestir textar séu eftir Sigurð Jóhannesson.
Á þessum tíma eru meðlimir hljómsveitarinnar: Elías Þorvaldsson hljómborð, Sigurður Jóhannesson gítar, Stefán Friðriksson trommur, Sverrir Elefsen bassi og Guðbrandur Gústafsson saxófónn.
Þeir félagar voru þó ekki einir á ferð því auk þeirra sungu gestasöngvarar í nokkrum lögum s.s. Hlöðver Sigurðsson, Harpa Gissurardóttir og Björn Sveinsson. Selma Hauksdóttir og Rafn Erlendsson sungu einnig í eldri upptökum frá þeim tíma sem þau voru meðlimir.
Heldri Menn
Eiginlega má líka segja með alveg þokkalegum rökum að Heldri Menn séu einnig elsta unglingahljómsveit sem sögur hafa farið af svo nokkru nemi, og þess utan ein af skemmtilegri hljómsveitum sem hafa verið “fundnar upp” á Siglufirði.
Þann 30. Mars 2009 komu þeir félagar fram í Kastljósi og vöktu að vonum heilmikla athygli, enda var bandið ekki beinlínis þessi týpíska grúppa. Sveinn Björnsson ein aðalsprautan í Bátsmanstríóinu og Heldri Mönnum, segir skemmtilega frá ævintýrinu í frábæru viðtali sem birtist á „Music all over the world“. Slóðin er: https://musicallovertheworlddotcom.wordpress.com/heldri-menn-sagan/
Ingimar Þorláksson er þarna líklega einn af elstu “starfandi” trommurum landsins (1924-2011) í góðum fíling, ekki nema 83 ára gamall þegar myndin er tekin, sem er á Síldarævintýrinu 2007. Það verður svo að fylgja að söngvarinn Svenni Björns sem hefur munninn yfirleitt fyrir neðan nefið, kynnti hann sem Ingimar Ringo Þorláksson. Það var svo Þorsteinn Sveinsson sem tók við af Ingimar.
Fílapenslarnir
Það voru Tommi Kára, Finni Hauks, Höddi Júll, Óli Kára og Steini Sveins ásamt undirleikaranum Sturlaugi Kristjáns sem mynduðu þennan skemmtilega hóp sem nefndi sig því undarlega nafni Fílapenslarnir og tróðu upp á Síldarævintýrinu 2010. Nokkuð sem flestir vilja yfirleitt vera lausir við, en þessi gerð „pensla“ er undantekningin á reglunni, enda ekki sú tegund sem þarf endilega að kreista. Samkvæmt upplýsingum á glatkistan.is höfðu fleiri mismikla aðkomu að hópnum og eru þar nefndir til sögunnar Guðbrandur Gústafsson, Gottskálk Kristjánsson, Steinunn Hulda Marteinsdóttir, Magnús Ólafsson og Sigríður Vigfúsdóttir.
Samkvæmt upplýsingum frá sömu síðu, voru Fílapenslarnir stofnaðir árið 1990 og hófu þá fljótlega að koma fram á Siglufirði en síðar einnig á skemmtunum utan heimabyggðar. Fílapenslarnir var ekki hljómsveit í eigilegum skilningi, heldur miklu frekar hópur af hressum og hæfileikaríkum strákum (stelpur komu reyndar líka við sögu um tíma) ásamt undirleikara sem sungu, hermdu eftir og skutu létt á samborgarana í oftast nokkuðð vel útfærðum sketsum.
Fílapenslarnir sendu frá sér kassettu árið 1993 „Fílapenslar Siglufjarðar“ og var hún endurútgefin 2004 á geisladisk, en um svipað leyti kom út önnur útgáfa, „Fílapenslar Siglufjarðar á sviði“. Fílapenslarnir komu fram í þætti Hemma Gunn áið 1995 Slóðin á þáttinn er: https://www.youtube.com/watch?v=AaxH7NiVS0s
Þórarinn Hannesson
Bílddælingurinn Þórarinn Hannesson eða Tóti trúbador fluttist til Siglufjarðar árið 1993 og hefur búið þar síðan. Segja má að hann hafi verið hinn mesti happafengur fyrir bæjarfélagið á Tröllaskaganum, en að sama skapi missir fyrir samfélgið vestra.
Ekki verður annað sagt en að þessum ágæta dreng sé heilmargt til lista lagt. Hann hefur verið meðlimur fjölmargra hljómsveita í gegn um tíðina, auk þess sem hann hefur einnig oft spilað og sungið einn með gítarinn. Hann hefur gefið út 5 geisladiska með eigin tónlist og fleira er honum hugleikið því hann er haganlega ritfær og hefur einnig gefið út 5 ljóðabækur, skráð og gefið út gamansögur frá Siglufirði, skrifað sögur hljómsveita og spurningakver, skrifað leikþætti og leikið í þeim, ritstýrt fréttabréfum og skrifað fréttir í héraðsfréttablaðið Helluna, tók þátt í tveimur uppfærslum með Leikfélagi Siglufjarðar, stóð að gerð útvarpsþátta, stofnaði Ljóðasetur Íslands á Siglufirði og er forstöðumaður þess.
Hann hefur og starfað með milli 20 og 30 hljómsveitum á Bíldudal, í Reykholti og á Siglufirði í mislangan tíma þó, en líklega þekkjum við hann best sem trúbador og meðlim í sönghópnum Gómum. Ágæta samantekt um hljómsveitarferil Tóta er að finna á glatkistan.is og slóðin er: https://glatkistan.com/tag/thorarinn-hannesson/
Terlín
Hljómsveitin Terlín varð til árið 1999. Þeir Ási Tona, Víðir Vernharðs, Hilmar Elefsen og Kristinn Kristjánsson voru upprunalegir meðlimir sveitarinnar en síðar koma þeir Fannar Vernharðs og Jón Svanur Sveins inn í staðin fyrir Hilmar og Kidda kennara. Víðir og Ási Tona höfðu áður spilað saman í þungarokksbandinu Blackmail en sú sveit lagði upp laupana í kringum 1995. Þeir tveir fengu inni í Suðurgötu 10 og fyrstu mánuðina voru þeir að spila saman því upphaflega var ekki gert ráð fyrir því að þetta yrði að hljómsveit. Þeir höfðu þó samband við Kristinn Kristjánsson bassaleikara og Hilmar “Hendrix” Elefsen gítarleikara, en hugmyndin var að prufa nokkur skipti og sjá hvað úr yrði. Fljótlega flutti hópurinn yfir í stóra frystiklefann á efri hæðinni í Ísafold og ennþá voru draumarnir um hljómsveitarbrölt ekki alveg vaknaðir.
Það breyttist þegar þeir fengu óvænt símtal frá Elíasi Ísfjörð sem þá var í Fjölbrautaskólanum á Króknum, því hann vildi bóka bandið á ball næstu helgi á eftir. Það komu strax upp nokkuð margar spurningar því ennþá var þetta bara til gamans gert og lagalistinn ekki 4-5 lög, en það þurfti allt að 40 laga lista fyrir svona gigg. Það voru 4-5 dagar til stefnu og hvar áttu menn að fá græjur? Hvernig áttum þeir síðan að komast á milli staða og hvað á hljómsveitin á heita? Þetta leit auðvitað út fyrir að vera ógerlegt, en kannski einmitt þess vegna sögðu drengirnir já.
Þeir voru þó ekki alveg að byrja í bransanum því Hilmar hafði verið í Max í nokkur ár, Kiddi í Herramönnum, Víðir í ýmsum hljómsveitum á Sigló svo og Ási líka. Víðir sauð saman 40 laga lista sem var samsuða af því sem var vinsælt þá stundina og lögum sem þeir höfðu áður spilað á böllum og markmiðið var að æfa 10 lög á kvöldi fram að balli. Á einhvern ótrúlegan hátt tókst þetta. Elli reddaði einhverjum græjum á Króknum, Kiddi og Hilli voru svo með lesljós til að sjá hvernig lögin voru sett upp í stílabókunum sem þeir notuðust við og þeir spiluðu þetta fyrsta ball undir nafninu SÓL því menn höfðu ekki gefið sér tíma til að finna nafn. Það var fullt hús á Bifröst og mikið stuð. Svo mikið stuð að sumir enduðu ballið á brókinni, en það er allt önnur saga og við förum ekki nánar út í það á þessum vettvangi.
Þeir Ási og Víðir voru að vinna saman á Netaverkstæðinu og veltu fyrir sér nafninu á bandið fyrir þetta ball. Ein af hugmyndunum var „Netalykkja“, en það var þannig til komið að þeir félagar ræddu oft og mikið um hljómsveitina Metallica. Júlli Kela vinnufélagi þeirra heyrði ekki betur en þeir segðu netalykkja og þeim fannst það mjög fyndið þegar misskilningurinn uppgötvaðist og ætluðu í fyrstu að nefna hljómsveitina Netalykkja.
Nafnið Terlín kom þó fljótlega eftir þetta ball og þeir fóru að spila mjög reglulega og hróður sveitarinnar barst víða. Þeirra heimasvæði var aðallega gamli Allinn við Túngötu og Bíóið við Aðalgötu þar sem þeir spiluðu mikið, en einnig áttu þeir það til að bregða sér af bæ, spiluðu m.a. í Húnvallaskóla, Hótel Mælifell, Bifröst á Króknum, Sjallanum á Akureyri, Víðihlíð, Players í Reykjavík, o.s.frv. Players reyndist hins vegar ekki vera beinlínis þeirra staður og Terlínstrákarnir með sitt pottþétta prógram fyrir unga fólkið lentu þar í nokkrum vanræðum vegna aldurssamsetningarinnar. Þarna voru flestir dansgestirnir um það bil að verða komnir af sínu allra léttasta skeiði og drengirnir sem vissu í fyrstu ekkert hvað þeir áttu að gera, komust þó í gegn um ballið á grínprógramminu eins og Ási Tona orðaði það. Aðal lögin voru Hryssan mín blá, Lukku Láki og fleira í þeim dúr.
Eina Verslunarmannahelgina voru 300 manns í salnum á Allanum og það gekk svo mikið á að hljóðkerfið hrundi niður á gólfið en það skipti engu máli, það var bara dansað áfram. Það var svipað á Bíóinu seinna, fullt hús og mikið fjör. Þetta var þó ekki alltaf dans á rósum og á endanum fór það svo að menn voru farnir að þreytast og fólkið vildi líka fara að fá einhverja nýbreytni svo að útgerðinni var sjálfhætt.
Í fyrstu var lítið til af hljóðfærum og drengirnir stóluðu mikið á Stúlla Kristjáns. Hjá honum fengu þeir lánaðar snúrur, míkrafóna, hátalara og kerruna sem hann smíðaði. Svo fengu þeir bassamagnarann lánaðan hjá Sverri Elefsen, en hann var kallaður “Skrímslið” vegna þess hve erfiður hann var í flutningum, en hljómurinn var óviðjafnanlegur. Eftir því sem þeir spiluðu meira, gátu þeir fjárfest í sínum eigin græjum og áttu á endanum m.a. mjög fínt hljóðkerfi. Eitt sinn var farið í Víðihlíð og aftan í bílnum var kerran hans Stúlla fulla af græjum, en það þurfti að koma við á Króknum og pikka þar upp Jónsa bassaleikara sem bjó þá þar. Rétt áður en áfangastað var náð heyrðist mikið brak og brestir fyrir aftan bílinn. Við athugun kom í ljós að dráttarkúlan á bílnum hafði losnað og mikil lukka að græjurnar dreifðust ekki um hina skagfirsku þjóðvegi. Þá var gott að hafa kunnáttumann eins Hilmar í bílnum því hann náði á einhvern undarlegan hátt að festa kúluna þannig að hægt var að halda áfram, en kúlan var svo fest almennilega þegar á Krókinn var komið. Jónsi var sóttur og það var spilað tvö kvöld í röð fyrir fullu húsi í Víðihlíð.
Sá ágæti siður var í heiðri hafður að bjóða gestum og gangandi að troða upp með bandinu. Það var aldrei nein hræðsla við prófa eitthvað nýtt og lítið sem ekkert undirbúið og svo var líka boðið upp á óskalög. Oft spiluðu líka vinir og vandamenn með Terlínstrákunum. Þeir bræður Gotti og Eisi mættu oft á pallinn með þeim, einnig Örvar Bjarna (Max) a.m.k. einu sinni. Trausti Sigurðar, Ívar Elefsen, Eva Karlotta, Pétur Bjarna, Finni Hauks, Rúnar Sveins og Björn Jörundur tróðu öll upp með okkur oftar en einu sinni og eflaust gleymast einhverjir snillingarnir.
En sumar hljómsveitir hætta aldrei alveg, því Terlínstrákarnir hafa oft slegið upp balli þegar eitthvað var um að vera og spiluðu m.a. á Allanum um áramót sex eða sjö ár í röð og oftast til kl. 6 og 7 á morgnana. Slík var spilagleðin. Ein áramótin fékk Gummi Davíðs þó alveg nóg og tók rafmagnið af piltunum klukkan að ganga 7 um morguninn á nýársdag. Þeir kláruðu þó lagið og byrjuðu á því næsta þó ekkert heyrðist nema í trommum og ballgestum sem sungu hástöfum með. Hljómsveitin Terlín fór tók upp eitt lag í Grjótnámunni árið 2000 sem hét “Margt sem maður gleymir”.
Plan B.
Það mun hafa verið einhvern tíma á árinu 1999 að þeir Jón Trausti Traustason bóndi á Sauðanesi og Guðmundur Ingólfsson rafvirki sátu saman að spjalli yfir kaffibolla, að umræðan barst að því að Jón hafði eitthvað trommað með Harmonikkusveitinni. Auðvitað vildi Gummi þá stofna hljómsveit í beinu framhaldi af þeirri uppgötvun og Jóni fannst það ekkert endilega neitt verri hugmynd en hver önnur. Haft var samband við Jóhann F. Sigurðsson sem fæstir þekkja þó nema hann sé kallaður Jói Abbýar, en hann hafði þá orðið uppvís að því að fikta talsvert við að spila á gítar. Þá bættust Brynjar Sindri Sigurðarson sem starfaði þá sem atvinnu og ferðamálafulltrúi á Siglufirði og Guðrún Helga Jónsdóttir frá Miðhúsum í Skagafirði sambýliskona hans fljótlega í hópinn eftir annað kaffispjall og í framhaldinu var farið að æfa saman.
Jóni Trausta trommara varð að orði þegar hann rakst á gamla mynd af hljómsveitinni Frum á netinu, en hún starfaði á árunum 1971-73: „Hann Gudmundur Ingólfsson var sem sagt eitt sinn ungur! Ég var svo frægur að vera í hljómsveit með Guðmundi um síðustu aldamót sem var hljómsveitin Plan B, en vinsældir hennar voru e.t.v. mestar innan sveitarinnar sjálfrar.
Man samt að Guðmundur söng nokkur lög o.þ.á.m. lagið ,,Stuck in a moment” með U2. Í því lagi kom Guðmundur mér verulega á óvart og skilaði söngnum langt framar mínum vonum og bara hreinlega vel. Sjálfur var ég trymbill og fékk á þessum tíma dæmigert komplíment frá Sturlaugi Kristjánssyni sem sagði: ,“Þú átt ekki langt í land með að verða næstum því efnilegur“.
Plan B starfaði frá árinu 1999 og fram yfir aldamótin eða til 2001 og spilaði á nokkrum böllum bæði innan bæjar og utan, en Gummi datt þó út úr bandinu eftir einhverra mánaða veru þar, að sögn vegna listræns ágreinings. Einhvers staðar á svo að vera til upptaka af jólalagi með þessum hóp en hún var gerð í Tónskóla Siglufjarðar undir handleiðslu Elíasar Þorvaldssonar.
The Sheep River Hooks.
Um aldamótin 2000 var Eva Karlotta Einarsdóttir að stíga sín fyrstu tónlistarskref sem trúbador á Bíóinu á Sigló, en það var svo árið 2002 að meiri og stærri hlutir fara að gerast. Hún var þá komin í Fjölbrautarskóla Vesturlands á Sauðárkróki og söng þar eigið lag í undankeppni Söngvakeppni Framhaldsskólanna ásamt Rögnu Dís systur sinni sem var þá að hefja sinn söngferil og Björgu Pálsdóttur sem ég veit ekki betur en að hafi komið frá Blönduósi. Saman kölluðu þær sig því skemmtilega nafni „The Sheep River Hooks“ og skemmst er frá því að segja að þær stóðu uppi sem sigurvegarar keppninnar, en það var hin góðkunna hljómsveit Von sem lék undir hjá keppendunum á Króknum. Í framhaldinu var svo keppt syðra og sagan endurtók sig. The Sheep River Hooks sigraði og stoltir Siglfirðingar heima og að heiman fögnuðu árangri sinna fulltrúa.
Eva sagði útgáfuna af laginu frá keppnini á Króknum þar sem Vonin lék undir, vera að sínu mati bestu útgáfuna. Önnur útgáfa var gerð í kjölfarið sem Vilhjálmur Guðjónsson kom að málum og birtist sú útgáfa á geisladisknum „Svona var á Sigló“ árið 2004. Rúmeninn Sorin M. Lazar sem rak hljóðver á Sauðárkróki gerði síðar þrælskemmtilega teknóútgáfu af laginu og var hún um tíma talsvert spiluð á FM Trölla.
– – – –
Það vantar alveg örugglega heilmikið upp á að um tæmandi umfjöllum sé að ræða um hinar fjölmörgu siglfirsku hljómsveitir sem urðu til og lifðu mislengi á síðustu áratugum síðustu aldar, en það sem í þessum kafla er ritað er aðallega frá tíunda áratugnum og lítilsháttar farið fram yfir aldamótin 2000. Þar sem ég var fluttur úr bænum fyrir margt löngu þegar hér var komið sögu, þekki ég takmarkað til þeirra hræringa sem urðu í tónlistarlífi bæjarins á umræddum tíma. Er þessi lokapistill minn því með nokkrum öðrum brag en þeir sem á undan fóru, því hér hef ég að öllu leyti stuðst við nokkra ágæta heimildarmenn sem lifðu og hrærðust í siglfirska poppbransanum, en upplifði nánast ekkert af ofansögðu á eigin skinni. Þykir mér því ástæða til að láta hér staðar numið og legg til að einhver annar sem betur þekkir til á þessum tímum svo og þeim sem á eftir fóru, taki við keflinu. Óteljandi skemmtilegar minningar eru tengdar hljómsveitaútgerð og öllu því sem fylgir slíkum umsvifum og það er með öllu ástæðulaust að þær endi á óminnisakrinum víðfeðma þegar tímar líða og hugur vor gerist feysknari.
Takk fyrir mig.
Leó R. Ólason.
Heimildir: Gottskálk Hávarður Kristjánsson, Víðir Verharðsson, Elías Þorvaldsson, Eva Karlotta Einarsdóttir, Jón Trausti Traustason, Sveinn Hjartarson, Þórarinn Hannesson, Ásgrímur Finnur Antonsson, hedinsfjordur.is, music all over the world.com, siglo.is, sksiglo.is, glatkistan.is
Fyrri hluta ritraðarinnar “Poppað á Sigló” og fleiri greinar eftir Leó R. Ólason má finna hér.