Daníel Páll Víkingsson hefur verið ráðinn varaslökkviliðsstjóri Slökkviliðs Fjallabyggðar og tekur hann við starfinu af Þormóði Sigurðssyni 1. janúar næstkomandi.
Auglýst var eftir umsóknum í starf varaslökkviliðsstjóra um síðustu mánaðamót og rann umsóknarfrestur út 14. desember síðastliðinn.
Daníel Páll hefur verið slökkviliðsmaður í Slökkviliði Fjallabyggðar frá árinu 2013 og varðstjóri frá árinu 2021. Hann þekkir slökkviliðið vel og hefur verið þátttakandi í mótun þess síðustu ár. Daníel er menntaður húsasmiður frá Verkmenntaskóla Akureyrar. Hann hefur lokið námi frá Brunamálaskóla Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunar og er með löggildingu sem slökkviliðsmaður.
Daníel Páll er kvæntur Ingu Hildu Ólfjörð Káradóttir og saman eiga þau tvö börn. Fjölskyldan er búsett á Ólafsfirði.
Mynd/Slökkvilið Fjallabyggðar