Brynja Baldursdóttir. Mynd/Fjallabyggð

Brynja Baldursdóttir var útnefnd  bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2023,  við hátíðlega athöfn fimmtudaginn 16. febrúar sl. í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði.  Er það 14. árið sem Fjallabyggð útnefnir bæjarlistamann ársins.  

Á hátíðinni voru einnig afhentir styrkir til menningarmála, styrkir til hátíðarhalda, fræðslustyrkir ásamt styrkjum til grænna verkefna en það er í fyrsta sinn sem Fjallabyggð veitir græna styrki.  Markmið grænna styrkja er að styðja við aðila sem vinna að umhverfisverkefnum í Fjallabyggð. Í haust sem leið var kallað eftir verkefnum sem nýtast samfélaginu í Fjallabyggð og gert ráð fyrir að framkvæmdir væru m.a. til þess fallnar að:

  • Bæta umhverfismál innan sveitarfélagsmarka Fjallabyggðar
  • Draga úr orkunotkun, mengun og/eða losun gróðurhúsalofttegunda og/eða er ætlað að bæta fyrir slíkt innan sveitarfélagsins.
  • Bæta ástand og útlit opinna svæða eða fólkvanga innan sveitarfélagsins.

Umhverfisviðurkenning Fjallabyggðar.

Ragnar Ragnarsson og Lísa Dombrowe hlutu umhverfisviðurkenningu Fjallabyggðar sem veitt var í fyrsta skipti. Þau Ragnar og Lísa hafa svo sannarlega sýnt frumkvæði með aðgerðum sem koma umhverfinu til góða og er með viðurkenningunni þakkað fyrir einstakt framtak, fórnfýsi og elju í þágu samfélagsins og náttúrunnar. Umhverfisviðurkenningin sjálf var í formi Hrafns eftir Aðalheiði Sigríði Eysteinsdóttur listamann, en Aðalheiður var bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2022.

Sigríður Ingvarsdóttir bæjarstjóri Fjallabyggðar gerði grein fyrir viðurkenningunni og afhenti hana.

Í nýlegri umgjörð um umhverfisviðurkennninguna kemur fram að Fjallabyggð leggi áherslu á að jákvæð afstöðu til umhverfisins og hún sé samofin allri starfsemi sveitarfélagsins.  Ábyrg afstaða til umhverfismála og samþætting þeirra við daglegar venjur íbúa og rekstur fyrirtækja og stofnana bæjarfélagsins skiptir miklu máli.

Umhverfisviðurkenning Fjallabyggðar er hugsuð sem hvatning og áminning til okkar allra, varðandi það að huga vel að umhverfinu og umgangast náttúru landsins af auðmýkt og á sjálfbæran hátt.

Umhverfisviðurkenning Fjallabyggðar er viðurkenning fyrir vel unnin störf í þágu umhverfismála sem samfélagið og íbúar þess njóta góðs af. Viðurkenningin er veitt einstaklingum, fyrirtækjum eða starfsemi sem hafa sett fordæmi með því að samþætta virðingu fyrir umhverfinu eða með því að sýna frumkvæði á annan hátt með aðgerðum sem koma umhverfinu til góða.

Fjallabyggð veitir rúmlega 70 milljónir í styrki.

Framlög Fjallabyggðar til menningartengdra styrkja hafa staðið í stað sl. 3 ár en í ár ákvað bæjarstjórn að hækka framlag til menningar og lista um 17% sem ber að fagna. Að auki hefur markaðs- og menningarnefnd verið úthlutað viðbótarfjármagi að upphæð 1.400.000.- sem notað verður til að styðja við svokallaða menningartengda pop-up viðburði,  óvæntar uppákomur eða viðburði sem verða til yfir árið, eftir að hefðbundum umsóknarfresti lauk í haust.  

Úthlutaðir styrkir Fjallabyggðar á árinu 2023 nema ríflega 70 milljónum og voru á hátíðinni úthlutað styrkjum að upphæð kr. 9.740.000.- og skiptast þeir þannig:

Í flokki einstakra menningartengdra verkefna kr. 3.100.000.-  og í flokknum styrkir til hátíðahalda kr. 3.955.000.  Fræðslustyrkir í ár nema kr. 435.000.- og styrkir til grænna verkefna kr. 1.950.000.-

Vel var mætt á athöfnina. Sigríður Guðmundsdóttir, varaformaður markaðs- og menningarnefndar setti hátíðina og Linda Lea Bogadóttir markaðs- og menningarfulltrúi flutti ávarp, afhenti með formlegum hætti styrkina. Sigríður Ingvarsdóttir kynnti úthlutaða græna styrki og afhenti Umhverfisviðurkenningu Fjallabyggðar 2023. Að því loknu útnefndi Linda Lea Bogadóttir markaðs- og menningarfulltrúi  bæjarlistamann Fjallabyggðar 2023, Brynju Baldursdóttur.

Við athöfnina voru flutt glæsileg tónlistaratriði.  Fram komu þau Eva Karlotta og Þórarinn Hannesson.

Að lokinni athöfn bauð Fjallabyggð gestum upp á léttar veitingar.

Fjallabyggð óskar styrkhöfum velfarnaðar í þeim verkefnum sem fram undan eru.  Brynju Baldursdóttur er óskað innilega til hamingju með nafnbótina Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2023 og þeim Ragnari Ragnarssyni og Lisu Dombrowe þakkað óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins og náttúrunnar.

Forsíðumynd/MÖ