Vísir.is greindi frá eftirfarandi frétt fyrir skömmu.
“Stjórnir Ísfélags Vestmannaeyja hf. og Ramma hf. í Fjallabyggð hafa skrifað undir samkomulag um samruna félaganna undir nafninu Ísfélagið hf.. Sameiginleg aflahlutdeild félaganna tveggja er átta prósent heildarkvótans. Stefnt er að því að skrá félagið á markað.
Í tilkynningu frá félögunum tveimur segir að forsvarsmenn þeirra séu sammála um að mörg tækifæri séu í fólgin í sameiningu þeirra, meðal annars til sóknarfæra og til að styrkja rekstrargrundvöll þeirra til framtíðar.
Samanlögð velta félaganna var um 28 milljarðar króna á árinu 2021. Í tilkynningu segir að stjórnir félaganna séu sammála um að stefnt skuli að því að skrá sameinað félag, Ísfélagið hf., á hlutabréfamarkað enda veiti það tækifæri til frekari vaxtar.
Ísfélag Vestmannaeyja hf. gerir út fjögur uppsjávarskip, tvö bolfiskskip og einn krókabát. Félagið er með starfsstöðvar í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn og rekur frystihús og fiskimjölsverksmiðju á báðum stöðum.
Rammi hf. gerir út fjögur fiskiskip frá Fjallabyggð og Þorlákshöfn og starfrækir fiskvinnslu í Þorlákshöfn og rækjuverksmiðju í Fjallabyggð. Dótturfélög Ramma hf. eru sjávarlíftæknifélagið Primex hf., sem rekur kítósanverksmiðju á Siglufirði og Arctic Seafood Ltd. sem er sölufyrirtæki Ramma í Bretlandi.
Stærstu hluthafar sameinaðs félags, með 83 prósent eignarhlutdeild, verða ÍV fjárfestingafélag ehf., Marteinn Haraldsson ehf., Gunnar Sigvaldason og Svavar Berg Magnússon.
ÍV fjárfestingarfélag ehf. er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu og heldur meðal annars utan um meirihluta í Ísfélaginu.
Marteinn Haraldsson ehf., Gunnar Sigvaldason og Svavar Berg Magnússon eru strærstu hluthafar Ramma.
Gert er ráð fyrir því að Stefán Friðriksson, núverandi framkvæmdastjóri Ísfélags Vestmannaeyja hf., stýri hinu sameinaða félagi, með aðsetur í Vestmannaeyjum og Ólafur H. Marteinsson, núverandi framkvæmdastjóri Ramma hf., verði aðstoðarframkvæmdastjóri með aðsetur í Fjallabyggð.
Skrifað var undir samkomulagið með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og hluthafafunda félaganna tveggja”.