Birt hafa verið til umsagnar drög að frumvarpi Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra, að lagabreytingum sem snúa að refsiábyrgð vegna alvarlegra atvika í heilbrigðisþjónustu. Með frumvarpinu er lögð til sú breyting að það megi gera heilbrigðisstofnanir ábyrgar (cumulative og hlutlæg refsiábyrgð), þegar að alvarleg atvik leiða til dauðsfalls eða stórfellds líkamstjóns, að því gefnu að rekja megi atvikið til margra samverkandi þátta í starfsemi hlutaðeigandi stofnunar.

Frumvarpsdrögin fela einnig í sér nánari skilgreiningu á alvarlegu atviki og ítarlegri ákvæði um rannsókn alvarlegra atvika. Þá eru lögð til ákvæði sem tryggja rétt sjúklinga og/eða nánustu aðstandenda til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum við rannsókn mála ásamt því að fá upplýsingar um framgang rannsóknar og aðgang að viðeigandi málsgögnum.  Loks eru gerðar breytingar á ferli kvartana til embættis landlæknis og skyldur heilbrigðisstofnana til innra eftirlits áréttaðar.

Um tilefni og nauðsyn áformaðra lagabreytinga

Lengi hefur verið kallað eftir breytingum á gildandi lagaumhverfi varðandi refsiábyrgð heilbrigðisstarfsfólks. Í núverandi lagaumhverfi byggir refsiábyrgð vegna alvarlegra atvika í heilbrigðiskerfinu fyrst og fremst á sök einstaklinga, þrátt fyrir að orsakir slíkra atvika megi oftast rekja til kerfislægra þátta.

Eins og rakið er í greinargerð með frumvarpsdrögunum getur núverandi lagaumhverfi haft margvíslegar neikvæðar afleiðingar fyrir heilbrigðiskerfið. Hætta er á að heilbrigðisstarfsfólk veigri sér við að tilkynna um alvarleg atvik eða taka þátt í rannsókn þeirra. Slíkt getur beinlínis hindrað framþróun öryggismenningar og dregið úr öryggi sjúklinga og starfsfólks. Einnig getur verið erfitt að fá heilbrigðisstarfsfólk til starfa á þeim starfseiningum sem mesta hætta er á að alvarleg atvik geti átt sér stað. 

Refsiábyrgð og almenn hegningarlög

Tekið skal fram að frumvarpið felur ekki í sér afnám refsiábyrgðar heilbrigðisstarfsfólks. Verði meðfylgjandi frumvarpsdrög að lögum verður unnt að láta heilbrigðisstofnun sæta refsiábyrgð fyrir brot gegn almennum hegningarlögum án þess að sýna þurfi fram á saknæma háttsemi tiltekins einstaklings. Í tilvikum þar sem talin er fyrir hendi vitneskja um að tiltekinn starfsmaður hafi sýnt af sér saknæma og refsiverða háttsemi er hugsanlegt að hann yrði látinn sæta ákæru, eftir atvikum ásamt hlutaðeigandi heilbrigðisstofnun. Slíkt ætti fyrst og fremst við um mjög alvarleg tilvik sem rekja mætti til stórkostlegs gáleysis eða ásetnings.

Starfshópurinn sem vann meðfylgjandi drög að frumvarpi hefur í vinnu sinni átt víðtækt samráð við hagsmunaaðila. s.s. félög heilbrigðisstarfsfólks, auk félaga, samtaka og annarra málsvara notenda heilbrigðisþjónustu.

Mynd/aðsend