Róbert Guðfinnsson athafnamaður á Siglufirði hyggst selja stórar og smærri eignir á Siglufirði svo sem “bankahúsið” við Aðalgötu 34, “kaupfélagshúsið” við Suðurgötu 2-4 o.fl.

Vextir á Íslandi eru nú í sögulegu lágmarki og því ætti að vera hagkvæmt fyrir kaupendur að fjármagna fasteignaviðskipti um þessar mundir.

Þegar það fréttist í litlu samfélagi, að athafnamaður með umsvif á borð við Róbert vilji selja stórar eignir, vekur það upp spurningar og jafnvel ákveðnar áhyggjur hjá öðrum í samfélaginu.

Í samtali við Trölla.is upplýsti Róbert að hann hyggst selja þær eignir sem ekki tengjast með beinum hætti þeim rekstri sem hann er í, en það eru yfirgripsmikil ferðaþjónusta og líftæknifyrirtækið Genís sem framleiðir m.a. fæðubótarefnið Benecta sem er vel þekkt hérlendis og erlendis undir slagorðinu “Aldur er afstæður”.

“Ég er ekkert að gefast upp og flytja í helli” sagði Róbert sem var einmitt að setja um 5 milljónir í nýja lýsingu í Hólsdal til þess að skíðagöngubrautir og ný sleðabraut þar nýtist í skammdeginu.

“Fókusinn er á þetta tvennt sem við erum að gera, ferðaþjónustuna og Genís. Ég var búinn að setja of mörg egg í sömu körfuna á Siglufirði” segir Róbert.

Með því að losa um þetta fjármagn ætlar Róbert að koma enn sterkari inn þegar Covidinu lýkur.

Mynd/samsett