Rögnvaldur Guðmundsson hefur verið ráðinn í starf verkefnastjóra SSNE á sviði fjármála og reksturs.

Rögnvaldur hóf störf 23. nóvember sl. og er með starfsstöð á Akureyri.

Rögnvaldur er fæddur og uppalinn í Bolungarvík en hefur þó búið víða m.a., í Reykjavík, Suðureyri, Akureyri, Ólafsfirði, Bandaríkjunum og Noregi. Rögnvaldur lærði sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri og er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Rögnvaldur hefur breytt svið í reynslu á vinnumarkaðnum.

Á unglingsárumnum starfaði hann t.a.m. við fiskvinnslu og hefur hann síðan þá öðlast viðamikla reynslu við bankastörf, sölu- og markaðsmál og fjármálastjórn í fiskiðnaði. Rögnvaldur hefur stýrt atvinnuþróunarfélögum í Noregi og verið framkvæmdastjóri félags sem vann að gerð umsóknar um umhverfisvænt fiskeldi í lokuðum sjókvíum.

Nú síðast var Rögnvaldur verkefnastjóri hjá Senter for hav og Arktis í Tromsö í Noregi þar sem hann er að leggja lokahönd á gerð skýrslu um þörfina á að nýta betur fiskafurðir sem og að draga úr kolefnis fótspori fiskiðnaðarins með frekari vinnslu afurða í Noregi. Að eigin sögn hefur Rögnvaldur mikinn áhuga á ljósmyndun, sérstaklega landslagsmyndum.

,,Ég tók einnig fram gönguskíðin eftir áratuga hlé þegar ég flutti til Tromsö, enda eiginlega hægt að spenna á sig skíðin heima í stofu og skella sér út í góðar troðnar brautir.”

Rögnvaldur segir Norð-austurhornið ákaflega spennandi svæði með góða vaxtarmöguleika.

,,Hér eru innviðir góðir og öflug fyrirtæki á svæðinu með metnað fyrir uppbyggingu. Þá er háskólinn mikilvægur svæðinu og mikið og gott starf unnið þar. Það að Akureyri verði miðstöð málefna norðurslóða kemur til með að verða lyftistöng fyrir svæðið, enda mikil gerjun í þeim málum á alþjóða vettvangi. Reynsla mín úr starfi við Senter for hav og Arktis kemur vonandi í góðar þarfir við þá vinnu sem framundan er í þeirri uppbyggingu.”

Hægt er að ná í hann á netfanginu rognvaldur@ssne.is eða í síma 464-5401.

SSNE býður Rögnvald hjartanlega velkominn til starfa.