Háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur birt nýjar úthlutunarreglur Menntasjóðs námsmanna fyrir skólaárið 2023-2024 í Stjórnartíðindum.

Í nýjum reglum er mikilvægt skref stigið til að bæta fjárhagslegt öryggi og sveigjanleika fyrir foreldra í námi og hækka skólagjaldalán til læknanema erlendis. Um leið er staðið vörð um framfærslu námsmanna en meginmarkmið laga nr. 60/2020 um Menntasjóð námsmanna er að tryggja jöfn tækifæri til náms.

Rýmra svigrúm fyrir foreldra í námi

Í nýjum úthlutunarreglum er sveigjanleiki barnafjölskyldna í námi aukinn. Nú geta báðir foreldrar í námi fengið 22 eininga svigrúm vegna barneigna en áður þurftu foreldrar að skipta svigrúminu á milli sín. Með breytingunni er námsmönnum sem eignast barn gert kleift að fá námslán í eina önn án þess að skila námsárangri eða rýmra svigrúm til að standast lágmarkskröfur um námsframvindu fram að 12 mánaða aldri barns.

Hækkun viðbótarskólagjaldalána fyrir læknanema erlendis

Komið hefur verið til móts við námsmenn erlendis vegna skólagjaldalána, en viðbótarskólagjaldalán sem læknanemum erlendis standa til boða eru hækkuð um 1.500.000 kr. umfram vísitölu neysluverðs.

Þá hækka framfærsla og frítekjumark sem nemur hækkun á vísitölu neysluverðs milli ára. Framfærsla einstaklings í leigu- eða eigin húsnæði verður 237.214 kr. og frítekjumark verður 1.622.000 kr.

Mynd/Hari