Særún Hlín Laufeyjardóttir skipar 2. sæti H-listans, Fyrir Heildina.

Kæru íbúar Fjallabyggðar. Þar sem ég er í framboði fyir H-listann þá langar mig að kynna mig aðeins því eflaust eru margir sem þekkja mig ekki.

Ég fæddist hér á Siglufirði og bjó ásamt móður minni hjá ömmu og afa á Aðalgötu 19. Foreldrar mínir eru Laufey Theodóra Ragnarsdóttir og Kristinn S. Magnússon. Margir þekkja mig sem barnabarn Louise og Ragnars en amma starfaði lengi sem kennari í Tónskólanum og tónmenntakennari í grunnskólanum og afi starfaði sem rafvirki. Ég gekk í þrjú ár í grunnskóla Siglufjarðar en restina af grunnskólagöngunni kláraði ég í Varmalandskóla í Borgarfirði þar sem móðir mín gerðist ráðskona í sveit og við fluttum þangað. Ég kom þó hingað á Siglufjörð á hverju sumri og þess má geta að ég fermdist hér á Siglufirði með mínum árgangi (1984).

Ég bjó hér einnig í eitt ár eftir að ég lauk grunnskóla og kynntist þá manninum mínum. Það var reyndar ekki fyrr en sjö árum seinna sem samband okkar hófst fyrir alvöru og við eignuðumst fjölskyldu saman. Aron Mar Þórleifsson er sonur Þórleifs Gestssonar og Bylgju Hafþórsdóttur. Við Aron eignuðumst Emilíu Ólöfu 2008 og bjuggum þá á Akranesi. Leiðir okkar lágu fljótlega til Reykjavíkur vegna náms. Við eignuðumst Bylgju Líf 2011 og ári seinna hóf ég nám við Háskóla Íslands. Ég útskrifast 2015 með B.Ed. gráðu í Grunnskólakennslu með tvö kjörsvið: Samfélagsgreinar og Matur, menning og heilsa, auk þess lagði ég áherslu á unglingastigið.

Að námi loknu hóf ég störf við leikskóla í Reykjavík og fékk fljótlega deildastjórastöðu. Stuttu seinna fæðist þriðja barnið okkar, hann Gabríel Máni, andvana eftir 21 vikna meðgöngu 2015. Til að hjálpa dætrunum að vinna úr sorginni skrifaði ég sögu fyrir þær. Þessi saga verður gefin út á þessu ári í samstarfi við Styrktarfélagið Gleym mér ey og mun það njóta góðs af. Eftir þessa reynslu urðu ákveðin þáttaskil í lífi okkar. Við létum okkur dreyma um að flytja heim á æskuslóðirnar og draumurinn varð að veruleika þegar Aron fékk vinnu hjá Genis á Siglufirði. Við vorum varla búin að koma okkur fyrir í leiguhúsnæði þegar þriðja dóttir okkar, Laufey Rún fæddist 2016. Við vorum fljót að finna að nú værum við komin heim og hér í Fjallabyggð vildum við vera. Við keyptum okkur húsnæði á Suðurgötu 75 og ég tók til starfa sem deildastjóri á Leikskóla Fjallabyggðar – Leikskálum. Ég er einnig í meistaranámi í Menntunarfræði leikskóla.

Þegar ég flutti aftur heim til Siglufjarðar hafði ég strax áhuga á málum sem tengdust samfélaginu og þjónustu við íbúana. Þar sem ég er með stóra fjölskyldu þá horfði ég fyrst og fremst á fjölskyldumálin og má því segja að þau ásamt skólamálunum eru mér ofarlega í huga. Umhverfismálin eru mér einnig afar hjartfólgin þar sem umhverfið er arfleifð okkar til barnanna okkar. Ég vil eindregið leggja mitt af mörkum til að hafa áhrif á samfélagið okkar, styðja það góða starf sem fyrir er og bæta það sem bæta þarf.

 

Upplýsingar af: facebooksíðu H-listans