Sætkartöflu, kjúklingabauna og spínatkarrý – uppskrift fyrir 6
- 2 msk ólífuolía
- 2 rauðlaukar, sneiddir
- 3 msk karrýpaste (athugið að þau eru missterk, ég var með frá Blue Dragon)
- 1 rautt chili, fínhakkað (takið fræin úr ef þið viljið ekki hafa réttinn sterkan)
- 3 cm bútur af engifer, rifinn
- handfylli af kóriander, laufin týnd af og stöngullinn hakkaður
- 3 sætar kartöflur, skornar í 2 cm bita
- 1 dós kjúklingabaunir (400 g), skolaðar
- 1 dós hakkaðir tómatar (400 g)
- 1 kjúklingateningur (eða grænmetisteningur)
- 2 tsk fiskisósa
- 1 dós létt kókosmjólk (400 g)
- 400 g spínat (ég var með 200 g), skolað
Hitið ólífuolíu í stórum potti eða pönnu yfir miðlungsháum hita. Bætið rauðlauk og karrý saman við og steikið í 10 mínútur, þar til laukurinn er orðin mjúkur. Bætið chilí, engifer, kórianderstönglum, sætum kartöflum og kjúklingabaunum í pottinn og steikið í 5 mínútur. Bætið þá tómötum, kjúklingateningi og 2 dl af vatni út í og látið suðuna koma upp. Lækkið hitan og látið sjóða við vægan hita í 10-15 mínútur undir loki. Takið lokið af og sjóðið áfram í 15-20 mínútur, þar til kartöflurnar eru soðnar og sósan hefur þykknað. Hærið kókosmjólkinni og fiskisósunni út í og sjóðið áfram í nokkrar mínútur. Hrærið spínatinu út í og sjóðið í 2-3 mínútur.
Stráið kórianderlaufunum yfir og berið fram með hrísgrjónum.
Ef þið ætlið að frysta réttinn þá er best að láta hann kólna í pönnunni áður en hann er settur í box og frystur. Rétturinn geymist í 3 mánuði í frysti.
Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit