Tekist hafa samningar milli Sjúkratrygginga Íslands og rekstraraðila hjúkrunarheimila um allt land um rekstur og þjónustu hjúkrunarheimila. Samið var við hvern og einn rekstraraðila en samningarnir eru samhljóða og taka til 2.468 hjúkrunar- og dvalarrýma. Andvirði þeirra nemur um 32,5 milljörðum króna á ári á verðlagi þessa árs. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur staðfest samningana sem gilda til ársloka 2021.
Samhliða þessum samningum við rekstraraðila hafa Sjúkratryggingar Íslands, Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu og Samband íslenskra sveitarfélaga gert með sér samstarfssamning um fagleg málefni. Í honum felst meðal annars að á samningstímanum verða raungögn um rekstur og rekstrarkostnað hjúkrunarheimila greind í samvinnu aðila og þannig undirbúin endurskoðun á rekstrargrundvelli þeirra.
Mikilvægir samningar
„Það er mjög mikilvægt að þessir samningar hafi náðst. Eins bind ég miklar vonir við að sú greiningarvinna sem ákveðið hefur verið að ráðast í skapi betri umgjörð um rekstur og þjónustu hjúkrunarheimila til framtíðar“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. Hún bendir á að þetta sé í samræmi við stjórnarsáttmálann þar sem áhersla er lögð á stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarrýma, en einnig fjallað um að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila, samhliða áherslu á að efla aðra þjónustuþætti svo sem heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu. Þá sé rekstrarumhverfi og rekstrarstaða hjúkrunarheimila og þörfin fyrir endurskoðun og úrbætur einnig sérstakt umfjöllunarefni í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar við fjárlagagerð þessa árs.
Af: stjornarradid.is