Veðurstofa Íslands hefur gefið út stutt yfirlit um tíðarfar á Íslandi í september 2023.

Hiti í september var nærri meðallagi áranna 1991 til 2020. Úrkoma var yfir meðallagi á mest öllu landinu. Mikið vatnsveður gerði á Austfjörðum, Norðurlandi og á norðanverðum Vestfjarðarkjálkanum dagana 18. og 19.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í september var 8,6 stig. Það er 0,1 stigi yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en jafnt meðallagi síðustu tíu ára. Á Akureyri var meðalhitinn 7,9 stig, 0,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020 en 0,5 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhiti mánaðarins 8,0 stig og 8,6 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik frá fleiri stöðum má sjá í eftirfarandi töflu.

stöðmeðalhiti °Cvik 1991-2020 °Cröðafvik 2013-2022 °C
Reykjavík8,60,1451530,0
Stykkishólmur8,0-0,156178-0,3
Bolungarvík7,60,344 til 45126-0,1
Grímsey7,10,235150-0,2
Akureyri7,9-0,150 til 51143-0,5
Egilsstaðir7,5-0,33069-0,8
Dalatangi8,00,02886-0,5
Teigarhorn8,1-0,238151-0,5
Höfn í Hornaf.8,6-0,3
Stórhöfði9,00,6231470,5
Hveravellir3,2-0,73059-0,9
Árnes7,8-0,254144-0,2

Meðalhiti og vik (°C) í september 2023

Hiti í september var nærri meðallagi 1991 til 2020, en undir meðallagi síðustu tíu ára á nær öllu landinu nema á suðvesturhorninu. Að tiltölu var hlýjast á Reykjanesi, höfuðborgarsvæðinu og í Vestmannaeyjum en kaldast á Miðhálendinu. Jákvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest 0,5 stig á Stórhöfða. Neikvætt hitavik miðað við síðustu tíu ár var mest -1,5 stig í Þúfuveri.

Hitavik (°C) sjálfvirkra stöðva í september miðað við síðustu tíu ár (2013 til 2022).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey 9,9 stig. Lægstur var hann á Þverfjalli 1,8 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti 4,7 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 20,1 stig á Miðfjarðarnesi þ. 2. Mest frost í mánuðinum mældist -7,9 stig á Þingvöllum þ. 21.

Úrkoma

Mánaðarúrkoman var yfir meðallagi á mest öllu landinu, sumstaðar vel yfir.

Dagana 18. og 19. gerði mikið vatnsveður á Austfjörðum, Norðurlandi og norðanverðum Vestfjarðarkjálkanum. Nokkrar skriður féllu í kjölfarið og ár flæddu yfir bakka sína.

Á Austfjörðum mældist heildarúrkoman þessa daga vel yfir 200 mm á nokkrum veðurstöðvum, t.d. í Neskaupstað, á Fáskrúðsfirði, Eskifirði og Hánefsstöðum í Seyðisfirði. Það er þó ekki óvanalegt að svo mikil úrkoma falli á þessum slóðum (nánari umfjöllun um vatnsveðrið á Austurlandi).

Á vissum svæðum á Norðurlandi rigndi óvenjumikið. Á Þverá í Dalsmynni var sólarhringsúrkoman þ. 19. skráð 128,5 mm sem er það mesta sem mælst hefur þar á einum sólarhring, en þar hefur verið mæld úrkoma frá árinu 1997. Sólarhringsúrkoman þ. 19. er einnig sú mesta sem mælst hefur á Auðnum í Öxnadal (61,3 mm, mælt frá 1997) og sú næstmesta sem mælst hefur á Akureyri (55,9 mm, mælt frá 1927). Sólarhringsúrkoman þ.19. var líka óvenjumikil á Vöglum í Fnjóskadal (46,6 mm).

Það var einnig mjög blautt þessa daga norðarlega á Ströndum og sumsstaðar á norðanverðum Vestfjörðum. En það er lítið af úrkomstöðvum á þessu svæði og því erfitt að leggja mat á hvort úrkoman hafi verið óvenjulega mikil á þessu svæði.

Úrkoma í Reykjavík mældist 65,6 mm sem er um 75% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældist úrkoman 99,4 mm sem er um 90% umfram meðallag áranna 1991 til 2020. Sólarhringsúrkoman þ. 19. (55,9 mm) er meira en helmingur af heildarúrkomu mánaðarins á Akureyri. Aðeins einu sinni hefur mælst meiri sólarhringsúrkoma á Akureyri, það var þ. 23. september 1946 þegar hún mældist töluvert meiri eða 91,8 mm. Í Stykkishólmi mældist úrkoman í september 93,0 mm og 162,0 mm á Höfn í Hornafirði.

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 13, tveimur færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 13 daga sem er fjórum fleiri en í meðalári.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 134,6, sem er 16,3 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 113,1, sem er 22,7 stundum fleiri en að meðaltali 1991 til 2020.

Vindur

Vindur á landsvísu var 0,3 m/s yfir meðallagi. Suðlægar og suðvestlægar áttir voru ríkjandi fyrri hluta mánaðarins en norðaustanáttir seinni hlutann. Hvassast var dagana 1. og 2. (sunnanátt), 18. og 19. (norðaustanátt) og 26. (norðaustanátt). Mjög hvasst var á Siglufirði þ. 19., sem olli því m.a. að þak fauk af húsi.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1002,2 hPa og er það 2,8 hPa undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1021,2 hPa á Fagurhólsmýri þ. 12. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 978,7 hPa í Bolungarvík þ. 2.

Sumarið (júní til september)

Í byrjun sumars var óvenjulega hlýtt og sólríkt á norðaustan- og austanverðu landinu. Júní var hlýjasti júnímánuður frá upphafi mælinga á Akureyri og Egilsstöðum. Á meðan var júnímánuður sérlega úrkomusamur og sólarlítill á sunnan- og vestanverðu landinu. Í júlí var aftur á móti kalt á Norður- og Austurlandi en að tiltölu hlýrra suðvestanlands. Þá var óvenju þurrt og sólríkt á sunnan- og vestanverðu landinu og var þetta víða þurrasti júlímánuður frá upphafi mælinga í þeim landshlutum. Ágústmánuður var tiltölulega hlýr um meginhluta landsins, hægviðrasamur og þurr framan af. September var svalari og úrkomusamari.

Meðalhiti sumarsins í Reykjavík var 10,5 stig sem er 0,2 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhiti sumarsins er í 23. hlýjasta sæti á lista 153 ára. Ágúst var hlýjasti sumarmánuðurinn í Reykjavík þetta sumarið. Á Akureyri var meðalhiti sumarsins 10,3 stig sem er 0,4 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Meðalhitinn þar raðast í 23. hlýjasta sæti á lista 143 ára. Júní var hlýjasti mánuðurinn á Akureyri þetta sumarið.

Úrkoma í Reykjavík mældist 235,4 mm sem er um 95% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020. Júní var mjög blautur í höfuðborginni en júlí óvenjulega þurr. Á Akureyri mældist úrkoman 169,4 mm sem er um 15% umfram meðallag áranna 1991 til 2020. Meira en helmingur sumarúrkomunnar á Akureyi féll í september. Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri voru 10 færri en í meðalári í Reykjavík en 4 fleiri en í meðalári á Akureyri.Sólskinsstundir mældust 752,8 í Reykjavík sem er 97 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020. Júní var óvenjulega þungbúinn í Reykjavík en júlí var aftur á móti mjög sólríkur. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 657,2 sem er 86,3 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Fyrstu níu mánuðir ársins

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu níu mánuði ársins mældist 5,9 stig sem er 0,1 stigi undir meðallagi áranna 1991 til 2020, en 0,3 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhiti mánaðanna níu raðast í 39. til 40. hlýjasta sæti á lista 153 ára. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna níu 5,6 stig, sem er 0,3 stigum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020 en jafn meðalhita síðustu tíu ára. Meðalhitinn á Akureyri raðast í 17. til 18.hlýjasta sæti á lista 143 ára.

Úrkoma í Reykjavík það sem af er ári hefur mælst 663,4 mm sem er um 10% umfram meðallag áranna 1991 til 2020. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 337,3 mm sem eru um 95% af meðalúrkomu áranna 1991 til 2020.

Skjöl fyrir september

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í september 2023 (textaskjal).
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.